Íslenski fáninn Brazilíski fáninn






Hjördís skrifar frá Brazilíu - Fimmti hluti
Tíminn þeytist hjá
Hæ hæ!!

Nú eru liðnar rúmar 4 vikur síðan ég fór frá Íslandi, trúiði því? Ég trúi því eiginlega ekki! Þetta er búið að vera svo rosalega fljótt að líða, það er alveg ótrúlegt! Portúgalskan skríður.
Í gær hitti ég enskukennarann minn og hún kenndi mér smá ensku, ég held samt að hún hafi miklu meiri áhuga á mér en portúgölskukunnáttu minni greyið, hún spurði og spurði og spurði alls konar spurninga. Þetta gengur kannski betur næst.
Á morgun fer ég svo með bekknum mínum í háskólann að skoða lík (!!) þetta er víst eitthvað í tengslum við líffræðina.

Bananar í kippum Ég bara verð að segja ykkur, það eru til alls konar ávextir hérna og það eru yfirleitt alltaf til nóg hérna heima. Appelsínur eru keyptar í fötuvís og bananarnir, já, ég vissi eiginlega ekki að þeir yxu svona margir saman!! En, þegar þau sáu mig setja banana á rúnstykkið mitt, vá, þau urðu hreint út sagt orðlaus! Þau höfðu aldrei séð þetta áður. Ég hélt að banani væri alveg jafn algengt álegg á brauð og ostur! Alltaf er ég víst að sjá eitthvað nýtt!
Vanessa, 14 ára, æfir ballett. Í dag var svona sýning hjá ballettskólanum hennar og ég fór að horfa á. Eeeh, þessi sýning var nú dálítið öðruvísi en sýningarnar sem ég hef tekið þátt í heima. Þetta var haldið í íþróttahúsinu, salurinn var skreyttur með blöðrum, í brasilísku fánalitunum audvitað, og að sjálfsögðu stóðu allir upp og sungu þjóðsönginn áður en sýningin hófst ;o) Fólk sat í stúkunni eða á gólfinu, allir hrópuðu og klöppuðu og blístruðu voða mikið eins og á fótboltaleik og margir voru með fána og veifuðu. Hmmm sæi ég nú svipinn á frú Sigríði Ármann í anda ef hún yrði vitni að svona háttalagi! ;o) hehe.
Sjónvarpsgláp Svo er það sjónvarpsmenningin. Allir hérna fylgjast með sápuóperunum. Það eru margar, á hverjum degi, hver á eftir annarri, og allir sitja og fylgjast með þessu. Ég skil auðvitað ekki mikið, en mér sýnist þetta nú bara vera eins og Nágrannar eða eitthvað álíka, þótt þau haldi því auðvitað fram að þetta séu allt öðruvísi sápuóperur en þær frá hinum löndunum. Pff erþanú vitleysa!!!

Ég var að hugsa um það í gær, hvað þetta er í raun mikil vinna, að reyna að komast inn í brasilíska fjölskyldu. Þau eru svo rosalega samrýmd, sérstaklega krakkarnir, þau þekkja hvort annað rosalega vel. Svo kem ég, og veit ekkert og á að heita systir þeirra! Mér finnst ég líka eiginlega ekki vera systir þeirra, því ég finn alltaf hvað ég á langt í land, ég svo rosalega fjarlæg þeim.
Ég held að það sé mun audveldara að komast inn í t.d. íslenska fjölskyldu, því við erum einhvern vegin öðruvísi. Þetta er alveg sitthvor hugsunarhátturinn. Ég get ekki útskýrt þetta, ég get ekki einu sinni útskýrt þetta fyrir sjálfri mér, þegar ég reyni að finna leið til að vekja á mér smá athygli. Þetta fjölskyldunet er svo þétt og þau þurfa að opna svo stórt gat fyrir mig til að komast inn. Ég vona samt að það heppnist á endanum. :o) Eins og til dæmis Vanessa, hún getur eiginlega ekki sofnað á kvöldin nema með Gé við hliðina á sér í rúminu. En þetta er í fyrsta skipti sem ég deili herbergi (og það er miiiiklu erfiðara en ég nokkurn tíman hefði ímyndað mér!!!), og mér finnst alveg nóg að deila því með einni manneskju, hvað þá tveimur. En stundum læt ég það eftir þeim, en það fer samt í taugarnar á mér, því það eru svo mikil læti í þeim. Mãe þolir ekki þegar þau gera þetta, svo ég stend ekkert ein í þessu.
Mér finnst líka allt í lagi að Vanessa taki smá tillit til mín, hún getur heldur ekki sofnað með lokaða hurð eða alveg dregið fyrir gluggana, það þarf alltaf að vera einhver birta, og ég tek tillit til þess auðvitað. Hún greyið er samt vön að deila herbergi. Þegar Dani fer, þá læsir mãe herberginu hennar =/ því hún vill hafa gestaherbergi í húsinu. Ég skil samt ekki afhverju við Vanessa megum ekki vera þar, því ég hef aldrei séð neina gesti hérna! Þar er sér baðherbergi með sturtu, svalir, mjög góðir skápar… ahh það væri yndislegt!! En ég kem hingað þá bara sem gestur seinna til að fá að njóta þess ;o)

Heyrðu, svo átti ég alltaf eftir að segja ykkur frá slysinu sem gerðist, maður á nú svo sem ekki að segja frá svona, en fyrst að allt fór vel er í lagi að hlægja að þessu. Daginn sem ég kom hingað spurði Dani hvort hún mætti sjá vegabréfið mitt. Auðvitað, sagði ég og rétti henni vegabréfið. Svo var þögn. Ég leit á hana og sá að hún horfði voðalega skringilega á mig. Svo spurði hún hvort ég væri viss um að þetta væri ég. Hún sýndi mér myndina . . . og það var mynd af Siggu!!!! Ég komst samt alveg í gegnum flugvellina á þessu og allt. Við sendum passana strax á milli okkar í ábyrgðarpósti, svo þetta var ekkert stórmál fyrst enginn setti út á þetta. Þetta er bara eitthvað sem við lærum af, við þurftum nefninlega alltaf að vera að sýna það, ég held að maðurinn á flugvellinum í São Paulo hafi látið okkur fá vitlausa passa og við svo miklir kjánar að athuga það ekki.

Ég vona að þið hafið það gott á Fróni, hér fer veðrið hlýnandi með hverjum deginum =S úff, fyrst þeim finnst þetta kalt hvernig verður þá í sumar??!! Þeim finnst heldur ekkert vera að hlýna, þau segja að það gerist ekkert í því fyrr en í september.
Þið megið svo endilega senda mér smá kveðjur, ég hef ótrúlega gaman að því.

Ykkar Hjördís.

Brúðkaup í Brazilíu