Nóg um það, það er víst ósköp fátt sem ég get gert í þessu, verð bara að halda áfram að hlusta á þau segja mér frá því að Brasilía hafi hvorki snjóflóð né eldgos og "liggaliggalá".
Annars er farið að kólna ansi harkalega hérna í Joinville, sem samt er einn af hlýustu bæjum Santa Catarina. Gráðurnar farnar að droppa niður fyrir tuttugu á morgnanna og á kvöldin. Á daginn er samt enn hlýtt, um þrjátíu gráður þar sem sólin skín, aðeins lægra í skugganum. Mér líst nú ekkert allt of vel á þennan næturkulda, húsið er svo kalt og stórt, ég sef í síðum ullarnærfötum og þykkum sokkum, langar í sængina mína heima, þetta lak er ekkert að virka.
Tvær helgar eftir í Brasilíu. Þarf að eyða annari í Curitiba. Ætla að reyna að gleyma því að ég sé að fara heim, njóta bara þessara daga minna hérna. Ég er að minnsta kosti að fara að hætta að vera skiptinemi, það er hið besta mál. Skiptinemar eru leiðinlegir, mig langar ekki að tilheyra þeim hópi lengur, langar bara að vera Hjördís. Eða Alice, það er yfirleitt meira gaman hjá henni heldur en Hjördísi. Samt sem áður finnst mér þetta hafa verið sniðug hugmynd hjá mér fyrir einu og hálfu ári síðan, að gerast skiptinemi. Heppilegt að ég vissi ekki þá hvað AFS eru hlægileg samtök, kannski bara eins gott að ég lenti þarna í Chapecó þar sem ég var alveg látin í friði í meira en helming skiptinemaársins?
Jæja, sjáumst eftir smá...
Ykkar Hjördís

Trúið þið því að árið mitt fallega í Brasilíu sé senn á enda og að ég sé komin með flugmiða og alles í hendurnar, er nánast bara á leiðinni upp á flugvöll? Tvær og hálf vika, ég trúi þessu ekki, ég skil þetta ekki, hvernig getur það verið að eitt heilt ár sé næstum liðið? Nei, þetta er ábyggilega eitthvað svindl bara, ég er ekkert á leiðinni heim!!
Búin að vera að vinna í veggspjöldum núna, fyrir þessar blessuðu landkynningar sem ég á víst að halda. Svo sem ekkert að því að kynna sitt land, er stolt af mínum uppruna og veit nokkuð margt um sögu lands og þjóðar, vandamálið er bara að Brasilíubúar kunna ekki að taka við svona upplýsingum. Vita ekki hvernig á að vinna úr þeim, skilja ekki að ég er ekki að segja frá landinu mínu til að monta mig eða til að reyna að gera þau öfundsjúk. Ég er ekkert að reyna að setja út á landið þeirra, mér finnst landið þeirra bara hið ágætasta land, hefur sína kosti - og galla, alveg eins og landið mitt! Veit ekki afhverju það er alltaf verið að biðja mig um að halda þessar kynningar, því áheyrendur fara alltaf undantekningarlaust í lás og telja upp allt það sem Brasilía hefur en mitt land ekki. Mér finnst þetta alveg hundleiðinlegur siður hjá þeim, þessi þjóð er svo ofboðslega undarleg. Af hverju geta þau ekki bara sætt sig við staðreyndirnar og ef til vill reynt að bæta aðstöðuna, leysa eitthvað af vandamálunum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þessi vandamál engan vegin Brössunum að kenna, heldur einhverjum portúgölskum hálfvitum sem drápu meirihluta innfæddra landsbúa og rændu auðæfum landins til að búa til skrautlegar kirkjur í heimalandi sínu. Og hvar kom mitt land við þessa sögu? 