Íslenski fáninn Brazilíski fáninn






Hjördís skrifar frá Brazilíu - Ellefti hluti
Íslands-kynning
Hæ þið uppi, hvað segið þið þá?

Er ykkur nokkuð kalt? ;o)

Hehe, smá grín bara. Hér er búið að vera mjög hlýtt undanfarið, verð samt að viðurkenna að ég myndi alveg þiggja smá golu, væri alveg vel þegið svona með sólinni.

Það er búið að vera í nógu að snúast hjá mér síðastliðna viku. Eins og ég sagði ykkur frá síðast er ég komin í tísku hjá enskuskólum Chapecó. Ég er búin að vera að flakka á milli enskuskóla til að spjalla um Ísland og lífið mitt þar, ég hef ekki undan öllum boðunum. Það er samt orðið dáldið leiðigjarnt hvað fólk veit lítið um landið mitt, spurningarnar sem ég hló að í fyrstu eru orðnar þreytandi. Í fyrsta lagi veit nánast enginn hvar Ísland er á kortinu, það er meira að segja algengt að fólk viti ekki einu sinni hvar Evrópa er. Allir halda líka að enska sé móðurmálið mitt. Mér finnst erfitt að fara svona og tala um landið mitt, því það er eins og fólkið trúi mér ekki. Ég lenti til dæmis í því um helgina að einn maðurinn hafði séð sjónvarpsþátt um Ísland, því tveir Brasilíumenn spila fótbolta á Íslandi. Í þessum þætti var talað um að 6 mánuði ársins væri snjór á Íslandi og þá ynni fólk ekki. Þegar ég sagði honum að þetta væri ekki alveg rétt fór hann bara að rífast og þræta! Ég fæ líka stundum svör á borð við "Víst er töluð enska á Íslandi!" og svo framvegis. Fólk trúir því ekki að það sé til land þar sem ekki er fátækt (eins og fátækt er skilgreind hér) og mikið ofbeldi. Ég kemst alltaf betur og betur að raun um hvað Ísland er gott land. En það er margt sem við þyrftum að læra, því kemst ég að raun um líka! En hver þjóð hefur víst sína kosti og galla, ekkert er fullkomið. Ég hef samt gaman að því hvað þessir tímar eru vel sóttir, foreldrar, vinir, allir koma, jafnvel þótt þau kunni ekki orð í ensku, bara til að sjá islândesu, það er, mig. :o)

Um helgina var einn af frændum mínum að útskrifast úr háskólanum. Það var voða veisla, sem ég reyndar skrópaði í, og við höfðum 18 næturgesti yfir helgina. Úff!! Mér finnst fjölskyldan mín mjög skemmtileg, það er gaman að vera innan um þau. Þau hlakka mikið til að fá mig aftur til sín til Ijui og fara í veislu með mér! Haha. Mãe bakaði stærðarinnar tertu, mmm, margar hæðir og alltaf sitthvort maukið á milli. Ég verð að læra að baka svona áður en ég fer heim!! En það var eitt sem vakti athygli mína, það tíðkast ekki hérna að ættingjar hérna kalli hvort annað skírnarnöfnum. Vó og vô eru amma og afi allra, meira að segja pai kallar þau vó og vô, þrátt fyrir að þau séu tengdaforeldrar hans. Sæi ég þetta fyrir mér í fjölskyldunni minni, hmmm, ég get nú ekki annað en hlegið að tilhugsuninni. Frænka heitir bara frænka og frændi heitir frændi, ekkert verið að flækja hlutina neitt, allt saman voða praktískt fyrir mig, ég þarf bara að muna hvernig fólkið er skylt mér, nöfnin skipta engu máli.

Jæja, ykkur langar kannski að vita ástæðuna fyrir því að ég skrópaði í veislu frænda míns. Ég fór nefninlega í öðruvísi veislu. Plötusnúðaveislu, æðislega gaman. Dansað alveg alla nóttina. Það er svo skemmtilegt að taka þátt í daglegu lífi fólks í svona litlum bæ. Þegar það er svona mikið að gerast í Chapecó, fara allir, allir. Enda var eiginlega ómögulegt að vera þarna inni fyrsta klukkutímann, svo mikið var af fólki. Og stelpurnar hérna, þær byrja að skipuleggja að minnsta kosti viku fyrir fram í hverju þær ætla og hvernig þær ætla að hafa hárið. Þær kaupa sér eitthvað að fara í, fara í klippingu og láta lakka á sér neglurnar. Þetta er eins og við látum eftir okkur einu sinni á ári; fyrir árshátíðir. Svo alla næstu viku tala þær um hver var í hverju, hver kyssti hvern og svo framvegis. Þetta er eins og nokkurs konar sýning, þær fara til að sýna sig og sjá aðra. Ég er nú samt ennþá svo mikill skiptinemi að ég greiði mér bara sjálf og fór í því sama og síðast, kannski á það eftir að breytast, hver veit?

Nú eru kosningarnar að skella á og undanfarnar vikur er búið að vera mikið um auglýsingaherferðir og áróður, en núna er þetta engu líkt. Fólk þekur bílana sína með plakötum og auglýsingum og keyrir um aðalgöturnar liggjandi á flautunni. Fólk flaggar stórum auglýsingafánum og bæklingum og öðru auglýsingarusli rignir yfir mann. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt! Það eru 4 frambjóðendur til forseta hér og fólk rífst og slæst um pólitík. Þetta er ótrúlegt. Það eru límmiðar alls staðar með andlitum frambjóðendanna, í sjónvarpi er varla talað um annað en kosningarnar. Ég veit ekki hvernig þetta verður þegar nær dregur, en þetta eykst með degi hverjum finnst mér. Gangstéttirnar eru gjörsamlega þaktar auglýsingum! Þetta verður eithvað fróðlegt er ég hrædd um!

Ég er voða mikið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að segja ykkur frá því hvað ég fékk í hádegismat í dag. Flesta daga eldar mãe matinn heima handa okkur og hann er alltaf mjög góður. Ég get satt best að segja talið skiptin sem ég hef fengið það sama að borða tvisvar síðan ég kom hingað, svo mikil er fjölbreytnin. Alls konar réttir, ég vissi ekki að það væru til svona margar hugmyndir, samt er aldrei til dæmis hakk eða kjötbollur, eins og er nokkuð vinsælt á mínu heimili á Íslandi. Eða fiskur, ég hef einu sinni fengið fisk, oj, hann var nú ekki næstum eins góður og fiskurinn okkar! Um það bil einu sinni í viku förum við svo til vó og borðum þar. Mér finnst maturinn hennar síðri en mãe, en yfirleitt góður líka. Nema í dag.
En það er lítið að marka íslensku kredduna mig, þeim finnst þetta alveg lostæti. Þess vegna fékk ég mér líka ágætlega á diskinn, því Vanessa sagði mér að þetta væri með því besta sem hún fengi. Þetta leit nú öðruvísi út á diskinum en það gerði í pottinum. Rauðbleikt, eins og mjög þykkt spakhetti, langt, en með fullt af hárum á einni hliðinni. Ég ákvað að þetta væri einhver sjávarafurð og át bara, þrátt fyrir að þykja þetta virkilega vont. Eftir á spurði ég svo Vanessu hvað þetta hefði verið (og ég þakka fyrir að ég spurði eftir á) og hún spurði mãe hvort hún mætti segja mér. Eftir langar samræður var ákvedið að það væri óhætt að segja mér frá því. Nautaþarmar, takk fyrir.

Þannig er nú lífið hérna í Chapecó. Alltaf eitthvað nýtt að sjá, hver dagur er sérstakur. Mér líður mjög vel hérna og kann vel við þetta allt saman. Allt er gott að frétta af henni Danielu blessuninni, hún hringir oft hingað heim og spjallar við mãe. Vanessa og Gé virðast lítinn áhuga hafa á henni og þau tala stundum um það hvað það sé gott að vera án hennar. Stelpugreyið. Ég er líka hissa, þau hafa ekkert bréf sent henni og hún er búin að vera þarna í tæpan mánuð. Ég er augljóslega ekki sú eina sem var fegin að losna við hana. Núna gengur fjölskyldulífið allt saman vel, allir eru vinir og engin vandamál, enda enginn til að búa þau til lengur. :o) Ég vona að þetta haldist svona.

Ég vona að ykkur líði vel líka.

Ykkar Hjördís.