Íslenski fáninn Brazilíski fáninn







Hjördís skrifar frá Brazilíu - Tuttugasti og níundi hluti
Brazilískar kellíngabækur
Halló allir saman!

Ég er að fara heim eftir 10 daga... 10 litla daga. Táraflóðið er strax hafið... ég veit ekki alveg hvernig þetta verður á flugvellinum, áts. Fór til Curitiba um helgina, til að hitta hina skiptinemana, síðasta námskeiðið okkar saman og líklega síðasta skiptið sem við hittum hvort annað. Hvílík sorg, hvílíkur grátur á einu hóteli! En við skemmtum okkur vel. Mjög vel, mikið party, mikið gaman, en ofsalega var erfitt að sætta sig við þessa staðreynd... skiptinemaárið er á enda og eftir tíu daga verður eins og ég hafi aldrei farið, bara minningin ein. Alveg sama hvert ég fer... ég á aldrei eftir að upplifa svona ár aftur, verða svona hluti af lífi og menningu innfæddra. En það er hollt að gráta, hollt að breyta til, hitta nýtt fólk og kynnast nýjum hlutum, er það ekki?

Ég hélt fyrirlestur upp í skóla í dag, um Ísland. Fyrir alla eldri bekkina og kennarana. Krakkarnir þurfa svo að skrifa ritgerð um Ísland svo þau sátu svo prúð og hlustuðu á mig, glósuðu og spurðu mig spurninga. Pabbi minn var svo stoltur af mér, talar ekki um annað núna. Það var margt sem þeim kom á óvart, samt ekkert nýtt, ég reyni alltaf að miðla því efni sem hentar hverjum aldurshóp fyrir sig. Gekk bara vel, að sjálfsögðu, þótt mér hafi nú fundist þetta frekar leiðinlegt, þá passaði ég mig á því að láta það ekkert sjást.

Annars er allt orðið planað, ofsaleg dagskrá bara síðustu dagana, því miður. Finnst ekkert gaman þegar aðrir taka upp á því að skipuleggja tímann minn, en hvað get ég svo sem gert, þetta er víst fjölskyldan mín. Ætla samt að hafa helgina út af fyrir mig, fara út og hitta vini mína, síðustu partýin í Brasilíu. Á miðvikudaginn verður svo voða veisla hérna heima, mamma og pabbi eru svo mikið fyrir veisluhöld, sýna húsið og hundana og bílana og... hehe, greyin. Þetta er nú meira hún móðir mín, pabbi er voða léttur, hann er alveg langt frá því að vera svona snobbaður.

En mamma er alveg hræðileg. Þetta skiptir eitthvað svo miklu máli hérna, alveg sama vandamál og ég lenti í Chapecó. Að vilja vera ríkur. Sýnast vera ríkur. Má ekki gera þetta og ekki gera hitt því það gæti orðið fjölskyldunni til skammar. Ég er bara svo leiðinleg dóttir að ég nenni ekki að standa í að virða þetta allt saman, í Chapecó gerði ég það sem mér fannst vera rétt á meðan það gerði ekkert illt fyrir fjölskylduna. Hérna líka. Þetta eru einfaldlega fordómar upp úr engu. Svona eru brasilískar kellingar, maður verður að vera með sléttað hár, í hneppublússum, með veski og skartgripi.
Maður má ekki tala við hvern sem er, bara þá sem eru líka með sléttað hár og í merkjafötum, þetta er alveg hræðilegt. Ég hef bara ekki þolinmæði fyrir þetta og konur verða bara að sætta sig við það. Núna eru amma mín og afi búin að búa hjá okkur í viku, hún greindist med krabbamein kellingin og var lögð inn á spítala, en núna er hún komin aftur. Alveg skelfing, hún talar ekki um annað en hárið á mér og fötin mín, fyrirgefið en ég er íslensk! Ekki þekki ég neina íslenska stelpu sem vaknar klukkan hálfsex til að slétta á sér hárið! Nei takk, ég set bara teyju, mikið fljótlegra. Meira röflið alltaf, ég er alveg að fríka út hérna. Hvað um það, það verður sem sagt veisla hérna, fullt af góðum mat, mmm, já ég vona að þið séuð ekki að búast við einhverri grannri og sólbrúnni stúlku..hehe, nei!!

En varðandi þetta snobb, hérna í Joinville er mikið um einkaskóla, misgóða að sjálfsögðu. Sá besti, sem talið er, er Bom Jesus, risastór og ofsalega dýr. að sjálfsögðu tók frúin ekki annað í mál en að senda drengina sína þangað. Sá eldri kom sér ágætlega í gegnum þetta, en sá yngri, hann Diogo varð hreinlega veikur. Bað mömmuna sína um að fá að skipta en hún tók það ekki í mál. Það var ekki fyrr en strákgreyið var farinn að þurfa á læknishjálp að halda, var andlega kvalinn innan um allt snobbið og uppgerðina að konan leyfði honum að skipta, en hún er ennþá bitur! Æj, hún er samt væn greyið, fæ samviskubit af því að tala svona illa um hana. Hún er að minnsta kosti fín til fara.

Nú er ég búin að senda allt sem senda vildi til Íslands, tæp 35 kg. Frábært að vera laus við þetta dótarí, núna vona ég bara að þetta skili sér. Vona að restin komist fyrir í töskunni minni bara, yrði alveg draumur að vera bara með eina tösku! Er núna í því að kaupa bækur og tónlist, allt á portúgölsku til að halda málinu við. Á svo líka eftir að vera í bréfaskriftum við vinina mína hérna.
Eftir smá tíma kem ég líka aftur, ekki spurning, Brasilía er æðislegt land! Fyrir fyrsta heims ferðamenn að minnsta kosti.
Allavega, sjáumst eftir tvær og hálfa viku,

Ykkar Hjördís