Íslenski fáninn Brazilíski fáninn






Hjördís skrifar frá Brazilíu - Fimmtándi hluti
Ný húshjálp o.fl.
Sæl öll sömul.

Eins og þið hafið ef til vill lesið um í blöðunum heima, náði Lula kjöri sem forseti. Fólk hér er nú misánægt með það, pai minn hefur til dæmis enga trú á honum. Ólíkt honum Ólafi okkar heima, er forsetinn hérna mjög mikilvægur.
Sérstaklega núna, þar sem dollarinn fer sífellt hækkandi, aðeins á þeim tíma sem ég hef verið hérna hefur gengi hans tvöfaldast. Þetta var í fjórða skiptið sem Lula bauð sig fram til forseta, minnir mig svolítið á Ástþór, ég skil ekki alveg hvers vegna Lula náði allt í einu vinsældum núna. Hérna í Suður-Brasilíu segja þau að fólkið fyrir norðan líki vel við Lula því það vill ekki vinna. En ætli það séu nú ekki aðallega fordómar ;o)

Mig langar til þess að segja ykkur frá afmælinu sem ég fór í á laugardaginn. Systurdóttir mãe varð eins árs og hér er eins árs afmæli stórafmæli. Hvílík veisla! Ég hef nú held ég bara aldrei séð annað eins! Hún var haldin í öðrum bæ, São Carlos, sem er í um klukkutíma akstri hédan frá Chapecó. Búið var að skreyta stóran salinn með ljósbleikum og ljósbláum blöðrum, stórum upphleyptum veggmyndum af Mínu mús og blóm og blúndur voru upp um öll borð og veggi, þetta var alveg rosalegt.
Stelpugreyið var svo klædd í þennan líka ofsalega kjól, bleikan að sjálfsögðu, minnti mig helst á brúdkaup. Mamman var svo í bleikri dragt og bleikum skóm í stíl og pabbinn í bleikri skyrtu, em fékk þó greinilega að velja buxurnar sjálfur. Svo voru settir Mínu mús hattar á alla krakka, hvort sem þeim líkaði betur eða verr og hálft afmælið fór í ljósmyndatöku, enda höfðu verið ráðnir tveir atvinnuljósmyndarar til að mynda ósköpin. Þið getið sjálfsagt rétt ímyndað ykkur hvernig veitingarnar voru í þessari veislu, hvílíkar kræsingar! Mamman hafði greinilega haft í nógu öðru að snúast heldur en að baka, því það sást langar leiðir að þessar kökur og réttir höfðu ekki verið gerðar af venjulegri húsmóður! Ég býð allavega bara spennt eftir næsta barnaafmæli!

Jæja, mig minnir að ég hafi kvartað undan því síðast að húshjálpin hafi verið rekin. Nú er komin ný, sem er algjört skemmtiatriði. Við mãe skemmtum okkur á daginn við að hlæja í laumi að henni greyinu og á ég oft alveg bágt með mig. Það er alls konar fólk að finna hérna, það er nokkuð ljóst og ég veit ekki hvar henni mãe tókst að grafa þessa konu upp!
Ég geri ráð fyrir að hún sé á sextugsaldri, vinnur alveg með ólíkindum hægt og talar svona líka rosalega við sjálfa sig. Hin húshjálpin var yfirleitt búin um fimmleytið, kom þó fyrir að hún fór um sex, en aldrei seinna. Þessi fer aldrei fyrir sjö og ég þarf alltaf að bíða eftir henni því mãe og pai fara að vinna klukkan sex. Svo þarf mãe að kenna henni hitt og þetta og endar alltaf á því að þurfa að hjálpa henni. Þegar ég sé mãe strauja fyrir hana þakka ég fyrir þeirri hvítu lygi sem ég sagði ykkur frá, því annars væri þetta ég. Ég sé nú samt ekki fram á að mãe hafi þolinmæði í þessa til lengdar, en ég hef gaman á meðan á því stendur :o)

Chapecó hefur íbúatölu svipaða og stórreykjavíkursvæðið en er þó engan vegin samanburðarhæfur Reykjavíkinni okkar. Hérna er mikið um svína- og kjúklingavinnslu og er bærinn þekktur fyrir það. Hann býður því upp á ágætis atvinnumöguleika og er hlutfall fátækra því lægra hér en í öðrum bæjum Brasilíu. Mér finnst það samt ósköp sorgleg staðreynd, því fyrir mér er fátækt hér mikil og vandamálið alvarlegt.
Undanfarnar vikur hef ég verið að dunda mér við það að rúnta um bæinn í strætisvögnum, með þýsku skiptinemastelpunni og er það oft mjög athyglisvert. Ég vissi ekki að ástandið væri svona slæmt í Chapecó, ég á svo bágt með að horfa upp á hvernig fólkið lifir. Ég efast um að fjölskyldan mín hafi nokkurn tímann séð þessi hverfi, enda myndu þau fyrir það fyrsta aldrei láta sjá sig þar og hvað þá í strætisvagni. Hér í miðbænum, þar sem ég bý, er fólkið efnað og ofsalega gott með sjálft sig, enda heppið að hafa fæðst undir réttu fjölskyldunafni. Þau láta sem þeir fátæku séu ekki til og ég hef horft upp á hann pai minn hérna hreinlega hlægja að þeim. Ì einni strætóferðinni stoppuðum við fyrir framan kirkju, fólkið hafði breytt húsi, sem greinilega hafði verið byrjað að byggja en hætt svo í miðju verki, í kirkju, með því að smíða bekki og lítið altari í miðjuna. Svo sat fólkið svo fallegt með hljóðfærin sín og við heyrðum sönginn frá þeim inn í vagninn. Þeim veitir ekki af Guði sínum, það er nokkuð ljóst, þau eiga ekki mikið meira en trúna. Litlu börnin eru svo saklaus, þau ganga um göturnar með heimagerðu bogana sína sem þau reyna að selja okkur hinum. Ef ég bara gæti gert eitthvað fyrir þau.

Ég ætla að færa mig yfir í eitthvað gleðilegra. Ég horfði á Aftur til framtíðar á portúgölsku í vikunni og skemmti mér stórvel yfir því. Mér finnst svo sniðugt að horfa á myndir sem ég hef séð áður á ensku, á portúgölsku, raddirnar eru svo asnalegar og passa engan vegin við persónurnar. Stundum eru líka bara einhverjar tvær raddir fyrir allar persónurnar, það getur verið alveg stórskemmtilegt að fylgjast með þessu. Sjónvarpsefnið hérna er svo fáránlegt. Ofsalega mikið magn af einhverjum svona sprell-þáttum, stjórnendurnir í asnalegum búningum og láta gestina gera einhverjar þrautir eða svara einhverjum spurningum. Ég skil ekki hverjum dettur eiginlega í hug að framleiða svona mikið rugl, ég held að íslenskt sjónvarp eigi engan þátt sem svipar til þessara, þó er ég mikið búin að hugsa. Að fólk skuli hafa gaman að þessu, það finnst mér alveg hlægilegast!

Síðasta sunnudag færðist svo sumartíminn á, nú er bara tveggja tíma munur milli mín og ykkur heima. Mér finnst það alveg ótrúlegt, miðað við hvað ég er langt í burtu. Mér finnst líka alveg ótrúlegt að sumartíminn skuli vera settur á í nóvember, því mér finnst ekkert vera nóvember. Ég hef aldrei áður upplifað nóvember í sól og hita, ég er alveg ringluð. Ég er þar af leiðandi ekkert að átta mig á því að afmælisdagurinn minn er eftir viku, mér finnst það engan vegin geta passað. Sumarfríið byrjar líka í þessum mánuði, sem er nú alveg til að toppa ruglinginn! En ég hef það bara gott, nýt þess að vera í sumri og sól og geta slappað af áhyggjulaus. Ég vona að þið heima hafið það líka gott, þótt ykkur sé eflaust aðeins kaldara en mér ;o)

Þið sleppið þó við pödduskrattana, það megið þið eiga. Líkaminn minn er ekkert að sætta sig við þessar pöddur hérna, lappirnar mínar eru svo bólgnar að ég kemst ekki í venjulega strigaskó. En mér var svosem nær að kæla mig í ánni í sveitinni um helgina. Hefði betur sleppt því! Alveg komin med hita og læti, en þetta kallast víst bara ofnæmi. Jafna mig á því.

Þangað til næst,
ykkar Hjördís