Kæru vinir!
Nú er loksins farið að hausta í fylkinu mínu Santa Catarina. Næturnar eru orðnar svalar og ég er ofsalega hamingjusöm með það.
Enn er þó heitt á daginn, samt yfirleitt undir þrjátíu gráðum, sem betur fer. Milli um það bil átta og átta þarf maður að
hafa eitthvað létt utan yfir sig, bómullarbol með ermum eða eitthvað álíka, svo mín er farin að geta keypt föt sem nothæf
eru á Íslandi líka. Ekki slæmt það.

Annars er voða lítið að frétta. AFS er náttúrulega alveg búið að skemma alla þá ímynd sem ég hafði á samtökunum,
er að verða létt taugaveikluð á þessu öllu saman. Finnst ég eiga stórt fyrirgefðu skilið frá þeim. Er enn að bíða eftir
að eitthvað gerist, þau eru víst hætt við að leita um allt land eins og áætlað var til að flýta fyrir, heldur ætla þau bara
að halda áfram að leita í bæjunum í fylkinu mínu og fylkinu fyrir ofan; Paraná, sem mér finnst alveg ótrúlega heimskulegt,
það er stórskortur á fjölskyldum og þau eru búin að vera að leita í þessum bæjum í allt of langan tíma! Jæja, en þau gera
víst allt annað en að hlusta á mig, þessir AFS-arar, svo ég verð víst bara að bíða.
Það er þó ekki það að ég hafi það eitthvað slæmt. Er nánast ekkert heima, bara rétt til að narta í eitthvað yfir hádegisbilið
og svo annað slagið til að sofa, gisti þó mikið hjá Önnu þýsku vinkonu minni. Eftir hádegi og á kvöldin er ég bara með vinum
mínum, sem ég á eftir að sakna ofsalega mikið. Trúi því varla að ég sé í alvörunni að fara frá þeim, eins og mér þykir vænt
um þau. Vona þess vegna að AFS láti nú hendur standa fram úr ermum svo ég nái nú að finna mér vini á nýja staðnum.
Mér líður í rauninni alveg ágætlega, er búin að venjast þessari stöðu en langar samt mikið að prófa að búa hjá alvöru
fjölskyldu, fjölskyldu sem er ekki svona svakalega ófeimin við að sýna hvað þeim er nákvæmlega alveg sama um mig!
Þetta er alveg ágætisfólk, en við eigum bara ekki samleið og það er langt síðan ég komst að því, og þau sennilega líka.

Ekki minnist ég þess að ég hafi sagt ykkur frá ferðinni minni til Florianópolis, höfuðborgar Santa Catarina. Fór þangað
til að tala við aðaltrúnaðarmann afs-svæðisins míns, bjó hjá honum og fjölskyldu hans í rúma viku. Það var alveg æðislegur
tími, þurfti alveg á þessu að halda. Húrra afs, ykkur tókst að gera góðan hlut! Var alveg að fíla mig ein á ströndinni.. ein í
heiminum! Trúnaðarmaðurinn keyrði með mig þvers og krus um eyjuna fögru, tek undir með hinum, þetta er án efa fallegasta
borg Brasiliu sem ég hef séð. Í Florianópolis er norsk skiptinemastelpa, hún Marte, og fannst mér frekar fróðlegt að
spjalla við hana. Við vorum í sama skóla, og báðar gerðum klukkutíma fyrirlestur um löndin okkar fyrir nemendur skólans.
Rosalega eiga Noregur og Ísland margt sameiginlegt enn þann dag í dag! Veit ekki hvort þetta er bara tilviljun, en við
Marte áttum svo vel saman, með svo svipaða heimssýn og hugmyndir, var farin að sakna þess að tala við einhvern
með sama hugsunarhátt og ég!

Getur verið mjög þreytandi að vera innan um Brasilíubúa lengi, sem betur fer hef ég
hana Önnu hérna til að spjalla við á okkar máta. Brassar eru alveg með ólíkindum lokuð þjóð varðandi þessi mál,
hver einn og einasti þykist alveg viss um að Brasilía er besta land í heimi og hvergi sé betra að búa og það er bara
útrætt mál. Það er stundum eins og þau fái minnimáttarkennd gagnvart Evrópu og Bandaríkjunum, síðan ég kom hingað
hefur fólk ekki gert annað en að setja út á Bandaríkin og fólkið sem þar býr, nánast allir segjast aldrei muni vilja stíga inn
fyrir landamæri Bandaríkjanna og ég veit ekki hvað og hvað. Ég veit að það er ekkert nema gott mál að vera stoltur
af sínum uppruna en fyrr má nú aldeilis vera! Fyrir utan það að uppruni fólksins hérna er nánast undantekningalaust
frá Evrópu. Hvað um það, við skandinavísku stelpurnar náðum vel saman í Florianópolis, gengum saman um miðbæinn
og á ströndinni. Ég las nokkur grímsævintýri á norsku sem fékk mig til að hugsa til Íslands :o) Er strax farin að hlakka
til að fara aftur til Florianópolis á AFS-fundinn sem verður að öllum líkindum í þessum mánuði.
Annars átti ég alveg æðislegan dag. Vanessa, systir mín svaf yfir sig svo við fórum ekki í skólann. Ég safnaði saman
öllu klinki sem ég átti og tölti út í bakari, fór heim og settist út á stóru stóru svalirnar í sólinni með heitt kaffi og "með því".
Las og las og las.. ótrúlega hamingjusöm með lífið og tilveruna. Það er svo þægilegt að vera svona einfaldur persónuleiki,
það er svo auðvelt fyrir okkur að gleðjast!
Ykkar Hjördís