Íslenski fáninn Brazilíski fáninn






Hjördís skrifar frá Brazilíu - Tíundi hluti
Blési í Brasilíu
Hæ þið heima!
Jæja, nú er enn ein vikan liðin, það er alveg með ólíkindum hvað tíminn flýgur hérna! Ég er nú samt fegin að hann líði hraðar heldur en hægar, ég held að það sé alveg hræðilegt að vera fastur á stað þar sem tíminn ekki líður. Ég vil samt ekki að skiptinemaárið mitt líði svona hratt, en það er víst lítið sem ég get gert í því. Ég er hress og kát eins og alltaf, mér líður ofsalega vel hérna. Sem betur fer :o)

Ég er ennþá að sjá nýja hluti hérna, þrátt fyrir rúmlega tveggja mánaða dvöl. Ég verð líka að játa á mig fordóma gagnvart Brasilíu, sem ég stóð sjálfa mig að. Í október verða kosningar og ég hafði einhvern vegin gert ráð fyrir því að aðeins hluti Brasilíumanna fengi að kjósa. En svo er auðvitað ekki. Þótt fólk eigi hvorki flíkur utan um sig né matarbita er kosningaatkvæðið ekki tekið af þeim. Indiánar, svertingjar, ríkir og fátækir, allir eru jafnir fyrir kjöri. Þessu bjóst ég ekki við. Því hér er ég í 3. heiminum og það er engin leið fyrir mig að gleyma því. Þetta er ofsalega ólíkt Evrópu, jafnvel þótt hér í Santa Catarina séu margir að uppruna Evrópubúar. Til dæmis eru einungis aðalgötur bæjarins malbikaðar. Þær eru ekki margar, kannski eins og Laugavegurinn og rétt helstu göturnar í kringum hann. Hinar göturnar eru bara möl eða jafnvel hreinlega mold.
Eins eru skólarnir hérna öðruvísi. Í mínum skóla er til dæmis ein tölva. Ein tölva í skólanum, ég hef aldrei séð hana, ég veit bara af henni því ég spurði! Skólabókasafnið er líka mjög fátæklegt, ég ein á fleiri bækur en skólabókasafnið í einkaskólanum sem ég er í. Og þessi skóli er talinn mjög góður. Ég er líka búin að fara á almenningsbókasafnið, ég verð nú eiginlega að fara þangað aftur með myndavélina mína svo þið gerið ykkur grein fyrir því sem ég er að tala um. Á Íslandi væri þetta ekki kallað bókasafn.
Það er engin regla á því hvernig bókunum er raðað, maður verður bara að leita. Það er samt ekki mjög flókið, ef þú veist að bókin er til, því hillurnar eru mjög fáar. Engin aðstaða til lesturs, það er á mörkunum að það komist fleiri en tveir í einu þangað inn þar sem bækurnar eru. Eins og húsið er nú sætt að utan. Já, það er margt sem minnir mig á hvar ég í heiminum er stödd. Ég læri ótrúlega margt á því að taka þátt í daglegu lífi hér.

Eins og ég hef sjálfsagt sagt ykkur frá fara foreldrar mínir gjarnan út fyrir bæjarmörkin á sunnudögum. Við vöknum þá snemma um morguninn og keyrum í sveitina, annað hvort þangað sem við eigum nokkurns konar vô og vò eða að fylgjast með pai spila.
Á sunnudaginn var boccia mót og við fórum með pai þangað. Það var þá eins og venjulega, kallarnir spila inni og drekka bjór saman og konurnar sitja á bekk fyrir utan og sauma krosssaum og fletta sérvörulistum. Mér finnst þetta alltaf jafndæmigert. Eins og klippt út úr kvikmynd. Hér setja líka kallarnir kjötið á diskinn hjá konunum, en við fáum að setja meðlætið sjálfar á diskinn. Samt þegar við borðum heima fæ ég yfirleitt að fá mér af aðalréttinum sjálf, nema það sé grill eða steik. Þjónustustúlkan fær líka að fá sér sjálf. Það er hins vegar undir pai komið hversu mikið mãe og Vanessa borða. Hreint ótrúlegt. Hann er líka ansi mikil karlremba hann pai minn hérna. Það sem við köllum karlrembur á Íslandi eru bara gulir túnfíflar samabornir við hann pai.
En hvað um það, áfram með sunnudagssöguna.
Eftir matinn sníktum við mãe far á bóndabæinn því það var alveg subbulega leiðinlegt á boccia mótinu. Í sveitinni er alltaf notalegt og konan á bænum og krakkarnir fóru með mig í margra klukkutíma labbitúr um sveitina, upp á stærstu hæðina þar sem ég gat séð alveg yfir í Rio Grande do Sul, alveg ofsalega fallegt. Þangað þarf myndavélin mín líka að komast. En ég þarf líka svo sannarlega að muna eftir þessum göngutúr, ég bæði sólbrann í andliti og hársverðinum (ekkert alvarlega samt) og ég er öll útbitin á höndunum. Ég hef satt að segja aldrei séð annað eins, ég bólgnaði svo rosalega, mér datt ekki í hug að þetta væri undan mýinu, því ég hef engin ofnæmisviðbrögð fengið á lappirnar þar sem þær eru vanar að bíta mig. Handleggirnir mínir voru nánast tvöfaldir en pai tók þá ákvörðun að það væri óþarfi að fara til læknis og lét mig fá einhvert náttúrulegt alkóhól úr trjám til að sulla á hendurnar. Ótrúlegt en satt, það virkaði.
Í dag er ég mun skárri og verkurinn alveg horfinn. Jæja, aftur að sunnudeginum. Um kvöldið kom pai svo til okkar á bóndabæinn og var frekar skrautlegur eftir dálega bjórdrykkju yfir daginn. Og hann kom ekki einn…
. . . heldur með hest með sér!! Já! Hann keypti hest handa mér og Vanessu! Haha. Og af öllum fallegum íslenskum hestanöfnum var Blési það eina sem mér datt í hug. Ég á hest í Brasilíu sem heitir Blési. Ég get hlegið endalaust að þessu!!

Í næstu viku byrja ég svo að taka prófin hérna. Ég er ánægð í skólanum mínum, ég veit að ég er mjög heppin með skóla. Ég er spennt að sjá hvernig mér gengur að svara spurningunum og skilja efnið. Hingað til hef ég bara fengið prófin og lesið þau yfir en aldrei skilað þeim aftur. Ég er nú ekki að gera neinar kröfur um góða einkunn, bara að vera með. Á morgun er mér svo boðið í enskuskóla hérna til að spjalla við nemendurna um lífið mitt heima á Íslandi, um muninn á þessum löndum o.s.frv.
Á laugardaginn er mér svo boðið í annan enskuskóla að gera það sama. Á mánudaginn er mér svo boðið í annan bæ til að tala við nemendurna þar. Fólkið hér er eins og þið heyrið mjög forvitið um mig og lífið mitt heima. Mér finnst það dáldið sniðugt. Þau gera sér samt enga grein fyrir því sem ég er að segja því þau þekkja ekkert annað en Suður-Brasilíu. Mér finnst samt gaman að heyra hvað fólk hefur mismunandi hugmyndir um landið mitt. Margir halda til dæmis að Ísland sé alveg flatt og ég sé að sjá fjöll hér í fyrsta skipti. Fjöllin þeirra eru hins vegar hæðir í mínum augum. Þau halda líka mörg, sem ekki kunna ensku, að á Íslandi sé hlýrra en hér. Ég veit samt alveg sjálf að ég er með alls konar ranghugmyndir um fjarlæg lönd, þetta er auðvitað bara eðlilegt.

Jæja, það er eitt í viðbót sem mig langar til að segja ykkur áður en ég hætti í bili, það er svo fyndið þegar mãe og pai verða óþolinmóð þegar ég skil þau ekki, þá tala þau hærra og svo hærra eins og vandamálið sé að ég heyri illa en ekki að tungumálið sé ekki alveg komið enn. Ég hlæ samt bara að þessu.

Hafið það sem best þangað til næst!!

Ykkar Hjördís