Fáni Santa Catarina fylkisins Brazilíski fáninn






Hjördís skrifar frá Brazilíu - Þriðji hluti
São Migel do Oeste
Dani á vini í bæ, sem heitir Sao Migel do Oeste og er eitthvað um 130 km frá Chapecó. Við fórum þangað, ásamt Fernondu vinkonu hennar, ég hef örugglega sagt ykkur frá henni, því hún er nýkomin heim frá US og talar þess vegna góða ensku auk þess að skilja mig rosalega vel þar sem hún er nýbúin að ganga í gegnum það sama og ég er að ganga í gegnum einmitt núna.
Við gistum heima hjá einum vini hennar, Gelson, og foreldrar hans eru með gestrisnara fólki sem ég hef kynnst. Við fengum 2 herbergi fyrir okkur 3, við Fernanda vorum í einu og Dani í hinu.
Mamman, hún Carla, bjó um okkur og var alltaf að stússast í kringum okkur, brjóta saman fötin okkar og laga til eftir okkur, þau elduðu handa okkur í hádeginu og á kvöldin (við komum seinnipart föstudags og fórum seinnipart sunnudags), á sunnudeginum var grill.
À föstudagskvöldinu vorum við heima, horfðum á vídeo og borðuðum það sem hún bar fram og á laugardagskvöldinu fórum við í partý sem Vini, besti vinur Dani hélt, því hann er að fara til US í þessari viku. Eftir partýið fórum við svo á tónleika hjá einhverri hljómsveit, sem ég náði nú reyndar aldrei nafninu á, þau sögðu að hún væri mjög vinsæl hér, mér fannst hún ágæt.
Ýttu og sjáðu Brazilíu og nágrenni - heildarkort

Í São Migel búa 30.000 manns, þetta er syðsti bærinn í fylkinu mínu, Santa Catarina, og það er bara ein brú yfir til Argentínu. Fernanda ætlar að athuga hvort það sé möguleiki á að hún geti fengið að fara með mig þangað í heimsókn bara í nokkra klukkutíma, svona til að hafa komið til Argentínu :o)

Mér finnst rosalega sniðugt hvað maður tekur eftir mörgu sem okkur finnst svo sjálfsagt heima þegar maður býr svona í öðru landi með fólki sem þekkir sína menningu. Á tónleikunum, sem voru svona svipaðir skólaböllunum heima, var t.d. enginn fullur. Þarna var fullt af krökkum frá ca. 15-16 ára og upp úr, og ég sá nánast engan virkilega ölvaðan. Svona sér maður varla á Íslandi. Annað líka sem ég tók eftir, þegar Carla sagði okkur að láta eins og heima hjá okkur, tóku þær því bara bókstaflega. Ég gerði það auðvitað líka, þegar ég sá að til þess var ætlast af mér. Við fórum bara í sturtu þegar við þurftum þess, þegar við vorum svangar fundum við okkur eitthvað að borða o.s.frv. Ekki hefði ég gert þetta heima, jafnvel þótt mér hefði verið sagt að láta eins og heima hjá mér.
Þegar ég spurði stelpurnar í rútunni hvar þessi staður væri eiginlega, því við ókum bara í gegnum endalausa skóga, þá sagði Dani að hann væri "þar sem djöfullinn hefði týnt stígvélinu sínu".
"Ha" sagði ég, og skyldi auðvitað ekki neitt, því ég hef aldrei heyrt þetta áður!!
Dani átti ekki til orð, "þetta er orðatiltæki" sagði hún, "hefurðu aldrei heyrt þetta áður??"
Þá hélt hún að orðatiltæki í Brasilíu væru bara þau sömu um allan heim, líka í íslensku. Henni fannst það svo sjálfsagt.
Ég fór líka að pæla aðeins í þessu, ég hefði alveg getað verið vís til að segja "einhvers staðar út í rassgati" í sama tilfelli, sem er í rauninni alveg jafn fáránlegt og þar sem djöfullinn týndi stígvélinu sínu. Ég hef aldrei spáð í þessu áður, ég skil gömlu orðatiltækin okkar sem eiga sér uppruna og sögu…, en hvað er þetta? Ekki orðatiltæki, bara svona expression eins og Fernanda kallar þetta. Þau eiga mörg svona orð, sem þau segja bara, eins og ef einhver er mjög óþolandi, þá er hann bekkur. Ég veit ekki afhverju, þau vita ekki afhverju, þau bara segja þetta. Eins ef einhver er rosalega flottur, þá er hann köttur. Þetta er alveg út í hött, finnst mér, en þau hafa aldrei spáð í þessu fyrr en ég fór að spyrja þau út í þetta. Þannig er nú það.

Það eru margir siðir sem ég þarf að læra, og svona óskráðar reglur. Það má til dæmis ekki leggja bók á borð sem borðað er við. Heima er ég vön að lesa og læra við eldhúsborðið, hér má það ekki, ekki bara á þessu heimili, heldur líka á Gelsons heimili. Mér finnst það mjög skrítið.
Þegar maður leggur á borð hér eru diskunum snúið öfugt. Fyrst gleymdi ég alltaf að ég þyrfti að snúa disknum við áður en ég setti mat á hann, ooo það var ótrúlega aulalegt, en ég er auðvitað búin að venjast núna. Maður þarf alltaf að slökkva ljósin á eftir sér, sem er ágæt regla fyrir mig að venjast, því við á Íslandi spáum sko ekkert í því. Hér eru ljósin slökkt eins mikið og þau komast upp með.
Svo er ég ekki ennþá búin að ná almennilega nærbuxnareglunni. Ég á sko að þrífa þær um leið og ég fer í sturtu, með sápustykki, og skilja þær eftir í sturtuhorninu og húshjálpin tekur þær og þrífur aftur. Málið er bara að þær eru aldrei teknar!! Þær hlaðast alltaf upp, svo þegar svona 5 eru komnar þá tekur hún þær. Ég skil þetta ekki. Það eru líka alltaf bara mínar nærbuxur þarna, reyndar eru þau með 3 sturtur í húsinu, nei 4 afsakið, en Vanessa notar þessa líka og hún hlýtur nú að skipta um nærbuxur stelpan! Ég fór og kíkti í sturtuna hennar Dani, og þar voru einar. Ég spurði hana og hún sagði að ég ætti að gera svona.
Strákar hins vegar þurfa ekki að gera þetta. Þeir skella þeim bara beint í óhreinatauið. Það er allt svo mikið svona hérna.
Pabbinn gerir ekki handtak á heimilinu. Nema að keyra bílinn. Í gærkvöldi, um miðnætti, kom hann heim úr vinnunni og var svangur og vakti Vanessu til að biðja hana um að gera súpu handa sér. Á meðan fór hann bara í sturtu og tók því rólega. Hann skipar bara hægri vinstri og allir hlaupa eftir því.
Svo fannst mér ýkt fyndið, það er svona áfengi hérna, svona eitthvað sérbrasilískt, og hann geymir alltaf inni í skáp og drekkur glas og glas (það er bara eðlilegt hérna . . ., fyrst vissi ég ekkert hvað ég átti að gera), hann lét mig þefa af þessu, ojojoj, og sagði að þegar ég færi heim yrði ég að taka eina svona handa pabba mínum. Þetta er 55%, gult á litinn og þau kaupa þetta í 2 lítra plastflöskum, bara eins og kókakóla. Þegar ég fer í mat til Vô og Vó drekkur Vô þetta líka. Sæi ég pabba í anda drekka þetta ógeð!!!

Svo er það skólinn. Ég talaði við skólastjórann í dag, ásamt eina almennilega enskumælandi bekkjarfélaga mínum, og bækurnar mínar koma víst ekki fyrr en á föstudaginn, og ég fékk það á hreint til hvers væri ætlast af mér. Ég þarf ekki að taka próf, bara sýna lit og gera heimavinnu þegar tungumálið verður komið.
Ég kom of seint í skólann í morgun, aftur, og það er víst alveg bannað, en dyravörðurinn opnaði bara hliðið fyrir mér og bauð gódan dag en krakkarnir sem komu svo rétt á eftir mér voru hundskammaðir. Híhí, gaman að vera skiptinemi :D Þetta var samt alveg óvart, strákgemlingurinn hann Geronimo var seinn, eins og alltaf, og við eigum að fara 3 samferða, ég, Vanessa og hann. Hans skóli er sko rétt hjá okkar. Á endanum gafst ég svo upp á að bíða eftir honum, því mér finnst alveg fáránlegt að láta það bitna á mér að hann geti ekki hunskast áfram, svo ég fór á undan þeim.
Allir kennararnir eru svo ýkt nice við mig, ég er rosalega feginn. Ég hlakka rosalega mikið til þegar tungumálið verður komið, því það er dáldið erfitt að skilja engan og engin skilur mann. Enskukennarinn, þegar hún talar við mig, þá spyr hún alltaf annað slagið hvort ég skilji enskuna hennar, og í tímanum var hún að skrifa einhverjar setningar á töfluna og ég fór alveg í kleinu, því sumar voru svo rangar. Þetta er ágætt fyrir egóið svo sem, því heima er enskan mín alveg hræðileg! ;o)

Ykkar Hjördís.

Lífið og tilveran í Chapecó