Íslenski fáninn Brazilíski fáninn






Hjördís skrifar frá Brazilíu - Áttundi hluti
Hjá nunnu í Porto Alegre
Oi!!
Jæja, nú er hún Dani blessunin farin. Ég hafði mjög gaman að því að fara til Porto Alegre en mig langar nú samt til þess að fara aftur með einhverjum öðrum en mãe og pai, því þau hafa áhuga á að nota tímann í borginni í annað en ég.
Dani er fyrsti fjölskyldumeðlimurinn til að fara í flugvél. Þau höfðu aldrei áður farið á flugvöll, nema flugvöllinn í Chapecó, og það er nú varla hægt að kalla það flugvöll hann er svo lítill. Svo ég býst við að þau hafi verið fegin að hafa ákveðið að leyfa mér að koma með sér, því ég var þeim til halds og trausts þarna.
Pai keypti McDonald´s handa okkur Dani á flugvellinum og hún hreinlega ljómaði stelpan því þetta var þriðja skiptið hennar sem hún fékk McDonald´s!! Fyrir mér er McDonald´s rusl, en ég ákvað að þegja bara um það. Dani þurfti svo að horfast í augu við það að ég hafði haft rétt fyrir mér varðandi þyngd farangursins, fyrir allt umfram 20 kíló þarf að borga og það getur kostað mikið. 45 kíló tók stelpan með sér, fyrir utan handfarangur, sem þó var bakpoki og handtaska og auðvitað bangsinn. Èg gat nú ekki annað en brosað yfir þessu, hún, mãe, pai og nunnan að væla í starfsfólkinu um undanþágu, hehe.

Við gistum hjá nunnunni, sem einhvern vegin er skyld okkur, ég náði aldrei hvernig. Hún er svona á ömmu aldri og býr í skóla þar sem hún kennir, ásamt fleiri nunnum. Það var voða notalegt þarna, þær voru mjög góðar við mig, gáfu mér að borða og ég fékk mitt eigið herbergi.
Èg fór í messu með þeim og skemmti mér bara stórvel með söngbókina að syngja sálma á portúgölsku! Þeirra messur eru öðruvísi en lúthersku messurnar, þessi messa var líka ólík kaþólsku messunni sem ég fór í á Mallorca. Allir voru svo daprir og margir sem grétu. Kannski var það eitthvað sem presturinn sagði, ég veit það ekki, ég var satt að segja ekkert mikið að reyna að skilja hann.
Mãe og pai eru frekar trúuð held ég, þau biðja alltaf langar bænir áður en við leggjum af stað í bíltúr, ef ferðinni er heitið eitthvað út úr bænum. Stundum biðja þau líka áður en við setjumst til borðs og svo við svona sérstök tilefni eins og sunnudagskvöldið fyrir viku, sem ég sagði ykkur frá síðast. Ég held að þau séu dálítið sérstök.
Þau eru öðruvísi heldur en annað fólk sem ég hef hitt hérna og allt öðruvísi heldur en fólkið sem ég þekki á Íslandi. En ég kann samt vel við þau og mér líður vel hjá þeim. Það skiptir mestu máli, ekki satt?
Ég get eiginlega ekki útskýrt hvernig öðruvísi þau eru, en ég er ekkert sú eina sem finnst það. Stundum held ég að pai sé hinn eini sanni Mowgli, þið vitið, sem ólst upp meðal úlfanna í frumskóginum. Ég hef aldrei séð svona áður, hann klórar sér bara þar sem hann vill klóra sér, sama hvar hann er staddur, hann borðar oft með höndunum og hann segir svo skrítna hluti, spyr svo skrítinna spurninga og gefur oft frá sér einhver svona hljóð. Ég hlæ samt bara að þessu, lítið annað sem ég get gert. Hann er samt mjög vænn og mãe er það líka.

Porto Alegre er ólík öðrum stöðum sem ég hef komið til. Èg hef auðvitað ekki séð margar borgir, en ég held að Porto Alegre sé svona dæmigerð fyrir Brasilíu. Èg þurfti að hafa mig alla við þegar við gengum í gegnum miðbæinn þar, aðalgöturnar, því það var svo ofsalega mikið af fólki sem streymdi á móti okkur og mãe, pai og nunnan gengu allan tímann á undan mér og ég var svo hrædd um að tína þeim. Èg þurfti líka að passa sjálfa mig og töskuna mína og á endanum gafst ég upp á þessu og krækti mér í pai, mér er alveg sama hvort honum hafi líkað það illa, nú er ég dóttir hans og honum hreinlega ber að passa mig!! Það var miklu betra þegar við vorum komin út fyrir miðbæinn, mér tókst meira að segja að plata þau með mig í stóra kringlu, en þau entust nú ekki lengi þar.
Við borðuðum svo á mjög fínum veitingastað, Galpã Creoulo held ég að það sé skrifað, hann var rosalega stór og flottur, allt starfsfólkið í búningum Rio Grande do Sul, sem er mjög sérstakur, minnir á nautabana eða eitthvað álíka. Og maturinn, þetta var ábyggilega stærsta hlaðborð sem ég hef séð, allt þetta meðlæti, alls konar gerðir af kartöflum, baunum, hrísgrjónum, spakhettíi, grænmeti, vá! Þú fylltir diskinn af meðlæti af hlaðborðinu og svo komu gæarnir í nautabanabúningunum til þín með alls konar kjöt grillað á teini og skáru fyrir þig af teininum.
Þetta var sko þjónusta í lagi! Pai var svo mikið í mun að ég lærði nafnið á veitingastaðnum og var alltaf að spyrja mig aftur og aftur, og í hvert skipti sem gæi kom með kjöt bað pai mig um að segja honum hvað veitingastaðurinn héti... ooo mér fannst þetta nú frekar aulalegt. Svo fór hann að spyrja mig hvað þeir (gæarnir sko) hétu, og ekki hafði ég nú hugmynd um það, og hann fór að þylja upp nöfnin á þeim og ég vissi ekki hvort ég átti að trúa honum eða ekki svo næst þegar gæi kom þurfti ég að spyrja hann hvað hann héti, ó, ó, auðvitað var pai bara að bulla í mér! =S
Það var svo mikið af skransölum á götunum þarna, ég get svarið það, ég hefði getað verið þarna í viku að gramsa. Èg sá ekkert menningarlegt, aðallega fólk, og áberandi hluti þess var fátækur.
Við skoðuðum heimavöll uppáhaldsliðs pai, Inter, og hann var ekkert smá hamingjusamur þar. Mãe þurfti að taka myndir af honum í bak og fyrir fyrir framan auðan völlinn. Þau eru svo hrifin af myndavélinni minni, þau hafa aldrei séð slíka áður og vilja voða mikið nota hana í staðin fyrir þeirra. Evrópustelpan ég rukka þau nú samt þegar ég framkalla, og þegar myndirnar verða komnar upp í 25 ætla ég að biðja þau um filmu, því það er eitt sem er ekki ódýrt hérna, filmur og framköllun!

Á föstudagskvöldið, þegar ég kom heim, fór ég svo til Citlali, ítölsku stelpunnar, ásamt Onnu, og Juli, systir Citlali var þar með okkur. Mér fannst það sýna mjög vel hvað sjónvarp hérna er stór þáttur í lífi fólksins þegar ég kom í stofuna, því þar var ekki sófi heldur stór dýna þakin teppum og koddum. Þar kúrði svo fjölskyldan og horfði á hverja sápuóperuna á eftir annarri. Juli fer til Danmerkur í sumar sem skiptinemi og ég er komin með það hlutverk að kenna henni dönsku, það verður eitthvað spaugilegt held ég :o)
À laugardaginn var svo þjóðhátíðardagur Brasilíu, ég skammast mín nú svolítið fyrir að segja frá því að ég hafi sofið af mér hátíðarhöldin, en afsaka mig þó með því að segja að Vanessa hafi verið sú eina í fjölskyldunni sem reif sig upp um morguninn. Við hin sváfum til hádegis. Um kvöldið voru svo tónleikar hérna, einhver voða þekkt brasilísk hljómsveit.
Það er þannig hérna, að allir fara á sama staðinn. Eins og á föstudagskvöldið, þá voru tónleikar líka, en ég ætlaði bara annað kvöldið, og þá gátum við ekki farið neitt út því allir staðir voru tómir. Það er samt kostur líka, því það er svo auðvelt að kynnast fólki þegar allir eru á sama staðnum. Tónleikarnir voru mjög góðir fannst mér og ég skemmti mér konunglega.
Það er stórt vandamál hérna finnst mér, hvað það er mikill skortur á umferðargæslu. Krakkarnir bera enga virðingu fyrir lögum og reglum hérna. Fólki finnst alveg sjálfsagt að keyra undir áhrifum. Þetta er alveg skelfilegt, að sjá fólk veltast upp í bíl og keyra af stað. À föstudagskvöldið varð líka óhapp, 19 ára strákur keyrði á annan strák sem var gangandi, og sá strákur er illa haldinn á sjúkrahúsi en sá 19 ára lést. Það þarf náttúrulega ekki að spyrja að því að ökumaðurinn var undir áhrifum.
Ég er mjög fegin að pai finnst sjálfsagt að keyra mig og sækja þegar ég fer á svona samkomur sem ekki eru í göngufæri. Ég er líka ekkert feimin við að hringja í hann, sama hvað klukkan er, því aldrei myndi ég þora að setjast upp í bíl með þessu fólki. Nóg finnst mér að þurfa að keyra sömu götur og það.
Í gær, sunnudag, var okkur Onnu svo boðið í fjölskylduboð til Rosaliu, trúnaðarmanns míns. Það er svo skrítið að vera svona sérstakur, fólk er svo áhugasamt um mig og landið mitt. Samt verð ég stundum dálítið þreytt á því hvað fólk veit lítið um Ísland, langalgengasta spurningin er til dæmis hvort við borðum mörgæsir á Íslandi. Mér finnst þetta svo mikið út í hött því allir vita að Ísland er fyrir norðan en ekki sunnan og mörgæsirnar eru á suðurpólnum!
Þetta fjölskylduboð var samt frekar skrautlegt, því allir fjölskyldumeðlimirnir voru búnir að drekka ágætlega, nema aumingja Gustavo, sonur Rosaliu, sem skammaðist sín alveg niður í tær fyrir fjölskylduna sína! Haha, sunnudagseftirmiðdagar í Brasilíu eru ólíkir þeim Íslensku, að minnsta kosti eins og þeir tídkast í minni fjölskyldu!

Næstu helgi verður svo mikið fjör og mikið gaman því það er AFS útilega í Curitiba!! Okkar hérna í Chapecó bíður 8 tíma rútuferð, babbara, en það verður alveg ábyggilega vel þess virði!! Curitiba er sögð ein af fallegustu borgum Brasilíu því ólík öðrum er hún sögð hrein og snyrtileg. Ég hlakka sko mikið til þess að fara því AFS útilegurnar eru sagðar það skemmtilegasta við þetta allt saman!

Já, það er sko nóg að gera hérna hjá mér og ég hef það mjög gott hérna. Mér finnst alveg áberandi stór kostur að þurfa ekkert að vinna, ég get ekki beðið eftir að komast í sumarfrí, því síðast liðin ár hafa þau farið í vinnu, en hérna má ég ekki einu sinni vinna!! Ég er svo ánægð að hafa komist hingað því ég finn svo vel hvað ég hef gott af þessu, ég læri svo margt og kynnist svo mörgu og mörgum :o)
Èg vona að þið hafið það gott heima líka!

Ykkar Hjördís.