Sæl og blessuð!
Hvað er nú að frétta af Fróni, allir hressir bara? Það eru að minnsta kosti allir hressir hérna. Nú er ég búin að þekkja
fjölskylduna mína nýju í tíu daga og er enn heilluð. Þau eru svo góð vid mig, það er alveg með ólíkindum.
Knúsa mig og kyssa í hvert skipti sem þau sjá mig, segja mér sögur og spyrja mig út í hitt og þetta.
Þau eru mjög lífsreynd og með svo opið hugarfar, segjast vera að læra alveg heilmikið af mér, hvernig
sem þau fara nú að því. Þau eru bæði læknar með starfsmannalækningar sem sérgrein, ef svo má að
orði komast á íslensku. Þau hafa unnið í langflestum fylkjum Brasilíu, meira að segja í Amazon skóginum,
en eru bæði frá Rio de Janeiro. Þau unnu í hóp sem bjó til stíflur til rafnmagnsframleiðslu og ferðuðust þannig
um landið. Núna vinnur hann sem starfsmannalæknir stórrar verksmiðju hérna í Joinville sem framleiðir strætisvagna
og aðra stóra bíla, og hún læknir skápa- og frystikistuverksmiðju.

Ég og bróðir minn hérna náum mjög vel saman, hann er algjör prakkari og það getur verið mjög gaman að
fylgjast með honum. Eina nóttina í vikunni vorum við úti að gefa hundunum og sáum að bílskúrsloftið var allt
þakið litlum bleikgrænum eðlum. Bróðir minn hljóp og náði í stiga og kúst og hóf miklar veiðar. Eftir að hafa
náð slatta lék hann sér að því að slíta af þeim halana, sem mér fannst alveg fyndnast í heimi, því eðlurnar hlupu
áfram og halinn hoppaði og skoppaði eins og brjálæðingur milli putta bróður míns, haha ótrúlega sniðugt.
Eftir smá stund byrjaði svo að vaxa nýr hali á eðlurnar. Bróðir minn hringdi líka og pantadi pizzu eitt kvöldið
og ég hló svo mikið að strákgreyinu, hann sagdi vid símadömuna "ég vil borða pizzu", haha og honum fannst þetta
svo eðlilegt! Alveg ótrúlega vænn strákur, kallar mig alltaf mana, sem þýðir eiginlega systa. Òtrúlega sætt.
Það er ofsalega mikill munur á því að vera hjá hreinskilinni fjölskyldu þar sem skýrar heimilisreglur gilda.
Mamman gekk um allt húsið með mér og útskýrði fyrir mér hitt og þetta, þar á meðal nærbuxnareglu okkar
stelpna á heimilinu. Það var alveg frábært að fá bara allan reglupakkann á einu bretti, mun betra heldur en að
vera alltaf í einhverjum efa um hvernig hlutirnir eigi að vera gerðir réttir. Og varðandi mat er þessi fjölskylda að
öllu leyti ólík mãe og pai í Chapecó. Hérna flæðir maturinn gjörsamlega úr eldhúsinu og búrinu og engin takmörk
eru fyrir hversu mikið þau borða. Þrátt fyrir að eiga hús fullt af fæði fara þau samt yfirleitt út að borða í hádeginu
og á kvöldin. Taka svo með mat af veitingastaðnum heim handa vinnufólkinu að borða. Býst við að það sé ágætt
að vinna hjá þessari fjölskyldu, enda er frökenin sem vinnur hérna á daginn búin að starfa hjá þeim í yfir 4 ár, eða
síðan þau fluttust hingað til Joinville.

Eitt sem mér finnst líka mjög sniðugt hérna að það má henda klósettpappírnum í klósettskálina, eitthvað sem ég
hef ekki gert síðan á Ìslandi. Var eiginlega búin að gleyma hvernig það væri, að þurfa ekki að leita að ruslafötu
fyrir pappírinn.
Annars sakna ég alveg ofsalega mikið vina minna í Chapecó, þau voru svo góð við mig og hjálpuðu mér svo mikið.
Vona að ég eigi eftir að geta heimsótt þau áður en ég fer heim. Nú er fjölskyldan mín hérna alveg vitlaus í að
ég verði mánuð í viðbót hjá þeim, svo við gætum náð að kynnast og tengjast almennilega. Þau eru svo yndisleg,
mikið finnst mér ég vera heppin að hafa lent hjá þeim. Þessi hluti skiptinemaársins míns er allt öðruvísi, Joinville
er mjög ólíkur Chapecó, íbúarnir... allt saman bara. Ég er mjög ánægð, en er samt þakklát fyrir þann tíma sem ég átti í
Chapecó, því við vinirnir þar skemmtum okkur ansi vel saman. Á aldrei eftir að gleyma þessum krökkum, besti
vinahópur sem ég hef á ævinni átt.
Jæja, þessar ljótu moskítóflugur eru að éta mig upp til agna hérna í tölvuherberginu, ætla að flýja úr ljósinu.
Hafið það sem best,
ykkar Hjördís