Íslenski fáninn Brazilíski fáninn







Hjördís skrifar frá Brazilíu - Tuttugasti og fyrsti hluti
Frí, frí og Carnival
Hæ hæ aftur!

Ég skrifa og skrifa, notandi tækifærið meðan ég get, það er víst ekki alltaf sem ég hef tíma, eins og þið hafið tekið eftir!
Jæja, biðin styttist óðum í carnavalið, það er allt að gerast!! Hittumst í dag stelpurnar til að þrífa húsið sem verður samkomustaður okkar fyrir og eftir aðalpartýið. Þetta er mjög sætt, grænt, gamalt hús á einni hæð sem stendur í göngufæri að klúbbinum og þar af leiðandi íbúðinni minni. Skemmtileg tilbreyting að búa svona í miðbænum, eins og á Íslandi... *hóst* ;o) Hehe.

Svo þarf ég að skutlast til klæðskerans á morgun til að máta fötin mín, vííí, ég er svooo spennt! Svo er upphitun á fimmtudags- og föstudagskvöldið á Republica, klúbbnum okkar hérna í Chapecó, og svo á laugardaginn hittumst við allar í húsinu okkar, uppdubbaðar og tilbúnar í slaginn, nánast stanslaus festa fram á miðvikudag!! Að sjálfsögðu er frí í skólum og öllu, allir að festa! Sæi ég íslenskt menntamálaráð gefa krökkunum frí á mánudegi, þriðjudegi og miðvikudegi til að fara út að skemmta sér!? Hvað þá alla vinnuveitendurna! Já þetta gerist bara í Brasilíu, en skemmtileg tilviljun að ég skuli vera stödd þar, finnst ykkur ekki? Nú er bara að vona að ég fái ekki kvef eða hita, það væri svo ekta ég. Ég er líka orðin svo spennt að hitta vini mína sem eru fluttir til annarra bæja til að vinna eða læra, þau eru öll að koma heim núna yfir carnavalið. Ég veit ekki hvernig ég á eftir að fara að því að yfirgefa allt þetta, ég trúi því ekki að ég skuli eiga minna en fjóra mánuði eftir, getur það í alvörunni staðist? Og kannski núna er ég að fara í annan bæ og byrja allt upp á nýtt, ég á svo sannarlega eftir að sakna Chapecó!
Annars byrjaði skólinn aftur á mánudaginn. Úff. Eftir meira en þriggja mánaða frí var frekar erfitt að vakna fyrir allar aldir og dröslast í skólann. Nú er ég komin í útskriftarbekkinn, þótt oft sé erfitt að taka eftir því. Hugsið ykkur þetta menntakerfi hérna, hvílík vitleysa! Já mér er bara alveg sama þótt ykkur finnist ég vera fordómafull, en þetta er bara sannleikurinn! Hérna er barnaskólinn 8 ár og svo framhaldsskólinn 3 ár, eftir það taka þau svo kallað vestibular sem er próf úr öllu námsefninu (líkt og samræmdu prófin) og einnig inntökupróf inn í háskólana. Þannig að krakkarnir taka vestibular á svipuðum aldri og við heima samræmdu prófin, munurinn er bara sá að samræmdu prófin eru eins konar inntökupróf inn í framhaldsskóla sem hjá flestum eru fjögur ár, en hérna er það bara beint inn í háskólann. Í Brasilíu eru einka barna- og framhaldsskólar mun betri heldur en þeir ríkisreknu en því er svo öfugt farið með háskólana. Þannig er nánast búið að útiloka þá efnaminni að góðri menntun, því punga þarf út morð fjár til að senda börnin í almennilegan skóla sem undirbýr þau undir að ná vestibular inn í ríkisháskólana sem eru ókeypis. Sá sem stundar nám í ríkisskóla á minni möguleika á því að ná vestibular inn í góðan skóla. Ég þekki marga sem fóru á sérstakt einnar annar námskeið, fimm daga vikunnar, til undirbúnings undir vestibular og þau borguðu R$450 á mánuði, þótt það sé ekki mikið fyrir Íslending þá er það mikið hér, til samanburðar segi ég ykkur að lágmarkslaun eru R$240 hér á mánuði, sem í íslenskum krónum yrði um fimmþúsundkall (1 real=22 krónur). Svo það er ekki skrítið hvað Brasilía er í miklu hakki, það vantar alla hugsun á bak við framkvæmdirnar hérna.
Í bekknum mínum núna eru fimmtíu og eitthvað nemendur og kennararnir eru allt sérkennarar til undirbúnings fyrir vestibular. Þetta er eins og einskonar sýning að vera í tímum hjá þeim. Það er eitt sem þessir kennarar mega eiga, þeir leggja sig fram, annað en margir þeir íslensku gera. Þeir hljóta að þurfa að hafa rosalegt úthald í þetta, hálfhlaupandi um stofuna, syngjandi og reitandi af sér brandarana, gerandi allt sitt besta til að koma námsefninu inn í höfuðið á krökkunum. Meira að segja ég, sem fygist þó bara með með oðru auganu, er komin með sögu fyrstu efnafræðinganna á hreint. Hvílíkar hugmyndir og vinna á bak við þetta! Ég verð nú samt að segja að ég átti bágt með að halda mér saman í bókmenntatímanum í gær, kennarinn teiknaði stóran tímaás á töfluna og skrifaði inn helstu nöfn og ártöl. Bókmenntasaga þessara brasilísku monthana byrjaði ekki fyrr en eftir sextánhundruð og það er ekki einu sinni vitað nákvæmt ártal! Hahaha! Krakkarnir þurfa ekki að fara að læra nöfn höfundanna fyrr en upp úr sautjánhundruð því fyrstu hundrað árin voru bókmenntirnar svo lélegar! Tímaásinn byrjaði á fimmhundruð og orðrétt haft eftir kennaranum: En eins og þið vitið var fátt annað að finna í Brasilíu árið fimmhundruð nema skóga og indíána. Já reyniði svo bara að gera grín að landinu mínu Brasilíubúar!
Heyrðu já, svo kom ég víst í ríkissjónvarpinu um daginn! Ég reyndar sá mig ekki, bara búin að heyra þetta frá hinum og þessum. Var upptaka frá mótorhjólahátíðinni í Campo Grande, ég var víst dansandi eins og brjálæðingur fyrir framan alþjóð! Gaman að því ;o)

Ykkar hressa og káta Hjördís semeraðfaraácarnavalíþessariviku!!!!!