Íslenski fáninn Brazilíski fáninn







Hjördís skrifar frá Brazilíu - Nítjándi hluti
Ferðin langa
þvert yfir Brazilíu
Então gente!

Nú er ég loksins komin heim úr langa langa ferðalaginu mínu um Brasilíu. Það er búið að vera rosalega gaman hjá mér, nóg að gera og alltaf stuð. Brasilia er mjög stórt land og á síðastliðnum einum og hálfum mánuði hefur mér tekist að sjá örlítið stærra brot af þessu dásamlega landi.

Ferðaslóðin, leiðin til var farin með rútu og slóðin ónákvæm.
Flore frá Belgiu kom að heimsækja okkur Önnu í byrjun janúar og að sjálfsögðu var hún hrifin af litla sæta bænum okkar. Það var nú dálítið hlægilegt þegar stelpan kom, það var laugardagskvöld og ég var á leiðinni út með vinum mínum þegar Anna hringdi úr hinum enda fylkisins og sagdi mér að Flore hefði tekið rútu sem átti að koma til Chapecó klukkan fimm um morguninn. Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að gera, því ég átti að fara með foreldrum mínum upp í bústað þann sama morgun og hvað átti ég þá að gera við stelpugreyið? Jæja, ég fór út og klukkan fimm var ég mætt upp á rútustöð með allan vinaherinn á eftir mér, aumingja Flore varð hálfhrædd, nývöknuð eftir ellefu tíma rútuferð! Tók svo stelpuna með mér heim og fjölskyldan fór í sveitina þegjandi og hljóðalaust, heppilegt það, eins lítið og mig langaði nú með þeim.

Þann 7. janúar tókum við þrjár svo rútuna til Curitiba. Eyddum degi þar og á fimmtudagsmorgni, þann 9. átti ég svo flug til Fortaleza. Þetta var sex tíma innanlandsflug og sem betur fer var ég búin að birgja mig vel upp af nesti því enginn matur var borin fram. Enda keypti ég sæti hjá billegasta flugfélaginu! Það var millilent í Ríó og Brasilíu og í Brasilíu settust tvær konur við hliðina á mér. Það er nú ekki frásögu færandi nema hvað að þessar uppdubbuðu um það bil fertugu konur voru að fara í sína fyrstu flugferð. Ég átti virkilega bágt með mig, að gera mitt besta til að hlægja ekki!

Fortalesa er strandborg í Brazilíu
Jæja, í Fortaleza beið mín Sigga vinkona mín af Álftanesinu og brasilíska systir hennar, hún Carol. Fortaleza er fimmta stærsta borg Brasilíu og hefur margt upp á að bjóða. Ofsalega ólíkt því sem ég er að upplifa í Santa Catarina. Ég verð þó að viðurkenna, að hérna fyrir sunnan er náttúran áberandi fallegri, svo gróðursælt og notalegt.
Við Sigga skemmtum okkur að sjálfsögðu vel saman, dönsuðum reggae á kvöldin og lágum á ströndinni á daginn drekkandi kókoshnetu með röri. Einn daginn gerðumst við meira að segja svo menningarlegar að við skelltum okkur á safn um Ceará, fylki Fortaleza. Einum deginum eyddum við líka á læknabiðstofu, það er alveg ótrúlegt hvað ég eitthvað óheppin! Ég fékk semsagt bakteríur í nefið sem venjulega gera ekki neitt, nema í mínu tilviki komust þær undir hægri höndina og ofan á vinstri öxlina og þurfti ég að taka lyf og nota krem við þessu. Nú er ég með ör. Það var nú hálfhallærislegt svona fyrstu dagana eftir, að vera með þessar sáraumbúðir svo við Sigga lugum því að ég hefði farið í aðgerð, að fjarlægja fæðingarblett. Það er öllu skárri saga heldur en þessi með nefbakteríurnar.
Beach Par í Fortaleza, Brazilíu

Í Fortaleza bjó önnur íslensk stelpa, Sigríður, og voru þær Sigga mikið saman. Sú stelpa er núna farin heim til Íslands aftur, eftir ársdvol í Fortaleza.
Við fórum saman þrjár í stóran rennibrautagarð sem heitir því frumlega nafni Beach Park. Það var alveg rosalega skemmtilegt, þær hvorugar höfðu farið þangað áður og við áttum sko ekki erfitt með að gleyma því að við í rauninni erum átján ára! Það var svo gaman í rennibrautunum, það var ein sem köllud var insano, eða á íslensku, geðveikt, og hún bar sko nafn með rentu! 41 metri takk fyrir, beint nidur!! Ég fann ekki fyrir rennibrautinni, húrraði bara beina leið nidur, veih!!

Natal
Eftir tvær yndislegar vikur með Siggu, hitti ég Hauk, annan íslenskan skiptinema, en hann hafði verið með fjölskyldu sinni í Fortaleza líka. Ég fór svo samferða þeim í rútu yfir til borgarinnar Natal, sem er í fylkinu Rio Grande do Norte. Þessi rútuferdð tók ekki nema átta tíma, fínt svona yfir nóttina. Í Natal komum við á fimmtudegi, 23. janúar og þar gistum við á ágætishóteli við ströndina.
Ég varð alveg heilluð af Natal, þar er virkilega fallegt. Fjölskylda Hauks á ferðaskrifstofu og var þetta ferð á vegum hennar. Þetta var svona túristaferð með dagskrá og alles, einn daginn var City Tour og annan daginn var farið í boggy ferð, keyrt um strandirnar á einhverjum svona litlum, nokkurns konar fjórhjólum.
Strönd við Natal
Þetta var allt saman mjög skemmtilegt, að sjálfsögðu. Vinur hans Hauks var með í ferðinni, Benni, sem er skiptinemi frá Þýskalandi. Nú held ég að ég sé endanlega búin að sanna það að þessar sögur um Þjóðverja sem ganga um á Íslandi séu sannar. Þjóðverjar eru í alvörunni allir svona hálf-tregir eitthvað, þetta er alveg ótrúlegt! Nú er ég búin að kynnast alveg slatta af þýskum krökkum og ekkert þeirra kann að skemmta sér almennilega og það þarf að útskýra allt extra vel fyrir þeim!

Allavega, Natal er skemmtileg borg, mæli alveg með henni.

Á sunnudeginum hófst svo lengsta rútuferð sem ég hef farið í, enda lauk henni ekki fyrr en á miðvikudagsmorgun. Sjötíu tímar í rútu takk fyrir. Rútustöðvamatur og bensínstöðvaklósett, oj, þrír dagar! Vid höfðum það samt ágætt, strákarnir spiludu á gítar og við spjölluðum og sváfum milli stoppa. Rúða var brotin eitt skiptið sem leiddi til tæpra fjögurra tíma stopps á bensínstöð og svo klikkaði eitthvað seinna sem leiddi til annarrar álíka tafar á annarri bensínstöð. Veih! Það er líka ekki eins og þjóðvegirnir hérna séu eins og vegirnir heima, jánei, við heima myndum örugglega ekki einu sinni kalla þetta vegi! Nánast, að minnsta kosti.

Í Dourados hjá Hauki
Haukur og fjölskylda hans búa í bænum Dourados, sem er í Mato Grosso do Sul. Dourados er örlítið stærri en Chapecó, en þó munar ekki miklu. Þar er ágætt að vera. Mikið líður mér áberandi betur í svona litlum vinalegum bæjum heldur en í hættulegu stórborgunum. Hér í Santa Catarina og í Rio Grande do Sul drekkur fólk mate, sem er nokkurns konar heitt, fínt mulið, grænt te, drukkið úr sérstakri trékrús með sérstöku síuröri. Laufin sjálf eru þá sett í þessa krús og svo er bara hellt út í heitt vatn aftur og aftur á meðan krúsin gengur manna á milli. Í Mato Grosso do Sul drekka þau þessi sömu lauf, nema bara grófara mulið og með köldu vatni og klökum! Krúsirnar þeirra líta líka allt öðruvísi út heldur en okkar hérna. Auðvitað er mikið sniðugra að drekka kalt í svona hita, ekki skil ég hvers vegna þau hérna eru svo hrifin af því að drekka brennheita drykki í sólinni.

Ég hafði það mjög fínt hjá Hauki, hann er mjög heppinn með fjölskyldu strákurinn. Reyndar reifst ég allharkalega við pabba hans eitt kvöldið, ég er nú meiri kjáninn. Ég á bara svo erfitt með að horfa upp á fólk tala illa um dökka fólkið. Pabbi Hauks er mjög fínn kall, en sjaldan hef ég hitt jafn mikla karlrembu í mínu lífi. Ég sem hélt að pabbi minn hérna í Chapecó væri karlremba!! Ég er að komast á þá skoðun að karlrembur finnist ekki á Íslandi, að minnsta kosti ekki miðað við það sem ég hef fundið hérna! Úff!

Campo Grande
Síðasta föstudag skrapp ég svo með Benna og brasilíska bróður hans, Lucas, til Campo Grande, sem er höfuðborg Mato Grosso do Sul. Þangað eru ekki nema fjórir tímar í rútu. Þar var haldin risa festa, sem kölluð var Moto Road. Sem sagt mótorhjólasamkoma.

Ekki veit ég afhverju mig langaði með strákunum þangað, eins lítið vit og ég nú hef á mótorhjólum, en þrátt fyrir það skemmti ég mér mjög vel.

Samkvæmt Lucasi komu þessa þrjá daga sem partýið stóð yfir um 120,000 manns, sem er nú alveg þokkalegt. Enda var þar að finna mótorhjólagæja frá öllum Suður-Ameríkulöndunum, Bandaríkjunum og ég veit ekki hvaðan! Á laugardeginum rúntuðum við um borgina, sem er falleg. Hitti enn einn þýska skiptinemann sem að sjálfsögðu féll undir sama hatt og hinir. Ferðin okkar heppnaðist mjög vel, við komum aftur á sunnudagskvöldi til Dourados og seinnipart mánudagsins tók ég svo rútuna hingað heim til Chapecó. Sú rútuferð var nú sú versta hingað til, mér var sagt að ég ætti að vera komin til Chapecó klukkan átta fimmtíu um morguninn en ég kom klukkan hálf tvö. Það var svo mikil drykkja í rútunni að ég þorði ekki einu sinni svo mikið sem reyna að sofna! Tuttugu tímar það, látum okkur nú sjá, samtals hafa þetta verið 114 tímar í rútu, það er nú ágætt er það ekki?

Ósköp fínt að vera komin hingað til Chapecó aftur. Þegar ég kom heim beið mín jólapakki frá fjölskyldunni á Íslandi sem loksins skilaði sér, svo ég hafði það notalegt í gærkvöldi, sat á svölunum með svarta kaffið mitt, Nóa súkkulaði og las kvæði eftir Einar Ben fyrir fullt tunglið.

Ykkar Hjördís.