Nú er liðinn hvað, meira en mánuður síðan ég skrifaði síðast?
Ég saknaði mikið vina minna í Chapecó, hefði nú heldur viljað eyða gamlárskvöldinu með þeim, en þetta var samt alveg
ágætt. Í fyrramálið förum við aftur í þennan kofa og komum aftur á mánudag. Ég á svo flugmiða til Siggu í Fortaleza þann
9. janúar og þarf að fara til Curitiba um kvöldið 7. til að taka flug þaðan. Ég kem svo aftur hingað til Chapecó um miðjan febrúar.
Sigga byrjar aftur í skólanum í janúar svo það getur verið að ég stoppi í Curitiba í nokkra daga á heimleiðinni,
því fjölskyldan mín verður hvort eð er ekki heima. Minn skóli byrjar ekki aftur fyrr en 24. febrúar svo ég hef nógan tíma.
Ég ætla að láta þetta nægja í bili, ég segi ykkur frá fyrri hluta desember mánaðar seinna, en það var alveg æðislegur tími.
Ykkar Hjördís.
Það er búið að vera ofsalega mikið að gera og ég hef varla haft tíma til að leggjast niður á milli daga.
Mér finnst nú hálfhlægilegt að jólin skulu vera yfirstaðin, ég keypti eina jólagjöf og sendi eitt jólakort. Mjög notalegt,
jól án alls stress. Ég átti oft bágt með mig, þegar mãe var að tauta yfir því hvað jólin eru erfið, margt sem þurfi að
gera og á þorláksmessu sagði hún að jólin væru enginn brandari. Ef hún bara vissi hvað íslenskar húsmæður þurfa að
ganga í gegnum vikurnar fyrir jól. Hún þurfti náttúrulega ekki að lyfta tusku, það eru ekki keyptar jólagjafir í tonnavís hérna
heldur bara eitthvað smotterí frá sveinka, ég sá hana aldrei skrifa jólakort, hvorki bakaði né eldaði, ekki veit ég yfir hverju
hún er að kvarta. Jólin fyrir henni er eins og að fara í barnaafmæli fyrir okkur, þarf að kaupa einn pakka og ákveða í
hverju maður á að fara.
Hérna í Chapecó var eytt miklu í ljós og skreytingar og ég get ekki annað en hrósað þeim, kirkjan var mjög falleg, öll í
ljósum og stórir englar úr seríum fyrir framan. Garðurinn fyrir framan kirkjuna var líka fallegur, með skreyttum
trjám og jólatrjám, búið var að setja upp hlöðu jesús með öllu tilheyrandi og jólasveinar í loftbelgjum héngu úr trjánum.
Aðalgatan var öll upplýst og einhverjar svona blikkandi nútímastjörnur á járnstöngum gnæfðu yfir bæinn. Í íbúðinni
okkar var pai búinn að setja saman plasttré og mãe skreytti það með jóla- og póstkortum. Trékransar voru hengdir
á hurðar og rauð gerviblóm í hallærislegum gullpottum var komið fyrir hingað og þangað um íbúðina. Herbergið okkar
Vanessu var þó orðið frekar jólalegt, það er að segja, minn helmingur. Anna, þýska vinkona mín, gaf mér jólatré í
jólagjöf og ég hafði keypt myndir á veggina og reynt að skreyta svolítið hjá mér. Konan sem ég bjó hjá í Curitiba gaf
mér líka dálítið af jólaskrauti sem ég gat notað. Ég spilaði svo jólalög sem fjölskyldunni minni fannst mjög undarlegur
siður, og át súkkulaðijóladagatalið sem Sigga vinkona mín keypti handa mér í Curitiba. En þrátt fyrir allt komst ég ekki
í jólastuð, mestu máli skipti samt að ég skemmti mér stórvel.
Á aðfangaðagskvöld fór fjölskyldan mín að vinna. Mér var boðið í þrjú jólaboð en fékk ekki að fara í neitt þeirra, var send
til vó þar sem systkini mãe voru samankomin. Kallarnir drukku sig fulla, ég sat og boraði í nefið og konurnar töluðu
um ilmvötn og snyrtivörur. Maturinn var svo um ellefuleytið, eftir það tók við klukkutíma uppvask áður en mér tókst að
koma mér út og yfir til hennar Önnu. Í jólamatinn voru alls kyns gerðir af grilluðu nautakjoöti, majoneskartöflusallat
og hrísgrjón. Ég át hrísgrjón. Ég get ekki borðað nautakjötið hérna, það er svo ofsalega þungt í magann minn.
Ég var samt alveg sátt, því hjá Önnu var hlaðborð eftirrétta og átti ég nóg af plássi eftir til að prófa allt.
Eftir að allir voru orðnir saddir og sælir drifum við Anna okkur út, við tók heljarinnar "festa" og við skemmtum
okkur saman með vinum okkar fram undir morgun. Þetta aðfangadagskvöld var algjörlega andstæða annarra
aðfangadagskvölda míns lífs en ég verð að viðurkenna að þetta er án efa það skemmtilegasta.
Ég var svo dregin á fætur á jóladag til að fara í hádegisverðarboð til vó. Það var alveg óhemjuleiðinlegt, enda endurtekning
frá kvöldinu áður, kallarnir fullir að spila bocia og konurnar í eldhúsinu að tala um snyrtivörur. Fyrir matinn mætti jólasveinninn
með pakka handa öllum, minn gleymdist nú reyndar út í bíl, en þar sem ég trúi ekki á brasilíska jólasveina þá tók ég það
ekkert nærri mér. Um fimmleytið var svo stefnan tekin á næsta jólaboð sem var að því leytinu skárra að ég hafði leyft mér
að opna þann jólapakka sem barst mér fyrir jólin og undi mér vel það sem eftir var dagsins yfir íslenskri bók. Mikið er
íslensk tunga falleg.
Á annan í jólum, sem ekki er frídagur hérna, hélt ítalska Citlali matarboð heima hjá Önnu, eldaði þennan líka rosalega
spaghettírétt sem var að sjálfsögðu mjög góður. Þetta var síðasta kvöldið okkar þriggja vinkvennanna saman, því
Citlali fer heim núna eftir nokkra daga. Við skelltum okkur í sund og fífluðumst fram eftir nóttu, mikið eru skiptinemar
frábært fólk! Ég á eftir að sakna Citlali mikið. Við hjálpum hverri annarri mikið hérna, ekki veitir af því oft er á nógu að taka.
Það er mjög heppilegt líka hvað við náum vel saman, sérstaklega við Anna, mér finnst mikið öryggi í því líka að fara út á
kvöldin með Önnu.
Jæja, áfram með sögurnar. Á sunnudagsmorgun fór ég með fjölskyldunni í lítið sumarhús sem þau eiga í Rio Grande do Sul,
Ronda Alta. Þetta er alveg ofsalega fallegur staður, stendur við stórt vatn sem hægt er að svamla í.
Ég fékk reyndar vægt sjokk þegar ég sá kofann, leit út eins og enginn hefði komið nálægt honum í sjoötíu ár.
Kongulónum virðist þó hafa líkað vel við mig, ég var eini fjölskyldumeðlimurinn sem þær létu í friði. Pai er með
tvö stór brunasár á sitthvoru kinnbeininu og systir mín fékk 2. stigsbruna á lærið. Mãe og Gé fengu einhver smáræði
bara og ég aðeins nokkur moskítóbit. Hengd voru upp hengirúm á milli trjánna handa hverjum og einum og svo var lífinu
tekið létt fram á fimmtudag.
Mér tókst að brenna smá, ég sofnaði í hengirúminu og sólin hérna er svo sterk að ég brann
í gegnum þétt hengirúmið. Tveir bræður pai komu með konur sínar og vó og vô komu líka og ein frænka með, sem er nunna.
Vatnið sem kofinn stendur við er ofsalega djúpt og átti fólkið ekki til orð yfir hugrekki mínu að hætta mér þangað
sem ég ekki næði niður. Ég hélt fyrst að það væri eitthvað hættulegt í þessu lygna vatni, einhver dýr eða eitthvað
álíka. Málið var hins vegar að þau eru ekki synd!
Þessir sterku menn sem alltaf eru með kjaftinn opinn stóðu eins
og hálfvitar og þorðu ekki lengra en þar sem hakan stóð upp úr, haha! Sunddrottningin Hjördís! Kallarnir dúlluðu
sér við veiðar, sem er nú kannski ekkert merkilegt nema hvað þeir notuðu heimatilbúnar veiðistangir, brutu sér
trjágreinar og bundu við þær spotta. Sæi ég kallana í minni fjölskyldu veiða með trjágreinum! Þeir veiddu slatta
á þessu og fengum við steiktan fisk í hádegismat einn daginn.
Á gamlárskvöld var mikið lagt upp úr því að borða ekki fyrr en á slaginu tólf. Ég var að sálast úr hungri og þegar
klukkan sló tólf var borið fram nautakjöt og alls kyns meðlæti sem ég át með bestu lyst. Hérna er siður að skála
klukkan tólf og borða tólf vínber með kampavíninu, eitt fyrir hvern mánuð ársins. Eftir matinn hélt mannskapurinn áfram
að drekka og var liðið orðið nokkuð skrautlegt, ég gafst upp á þessum fíflalátum og kom mér vel fyrir á bryggjunni með
stjörnubjartan himininn fyrir ofan mig.
og takk fyrir það gamla!