Krakkarnir í skólanum eru líka búin að vera að slæpast í einhverjum prófum, kann því alveg ágætlega að þurfa ekkert að mæta. Pabbi minn hringdi í skólastýruna um daginn og sagði henni að ég (og bara ég) mætti ganga inn og út úr skólanum eins og mig lysti, svona er pabbi minn auðveldur. Aumingja hinir skiptinemarnir þurfa að hanga þarna inni og gera ekki neitt. Gaman að vera dóttir AFS-forsetans.
Annars er ég bara á leiðinni heim eftir nokkra daga. Flugmiðinn kominn og allt saman. Frekar súrt að þurfa að fara, hugga mig við það að ég er að fara til ríks lands þar sem er lítið mál að redda sér pening fyrir flugmiða til Brasilíu. Mér líður svo vel hérna. Þessi fjölskylda er svo hlægileg. Skemmti mér svo vel að fylgjast með þeim, maður verður bara að hafa stillt á réttan húmor. Mér finnst stundum eins og ég sé stödd í miðjum sjónvarpsþætti, þar sem öll fjölskyldan hefur alltaf eitthvað að þræta um en allir eru vinir og geta ekki lifað án hvors annars. Samt er dálítið þreytandi á köflum að vera allt í einu partur af svona miklu fjölskyldulífi.
Ég er aldrei bara út af fyrir mig eins og ég var orðin svo vön í Chapecó, nú þarf ég að láta vita af öllu sem ég geri og er eins og alvöru dóttir þeirra. Mamma mín sagði mér að hana hefði alltaf dreymt um að eignast dóttur í sporðdrekamerkinu því hún dáist svo af sporðdrekakonunum. Hún reiknaði því voða vel út hvenær barnið kæmi undir svo það myndi fæðast í nóvember og eignaðist hún svo þann 1. nóv hann Diogo. Eitthvað er ég hrædd um að konugreyið sé fegin að draumur hennar hafi ekki ræst, henni finnst nýja sporðdrekadóttirinn vera aðeins of sjálfstæð og ákveðin.
Èg er búin að reyna að vera útskýra fyrir henni að við íslensk börn erum flest sjálfstæð, við erum ekki svo háð foreldrum okkar eins og brasilísku börnin. Hún skilur þetta ekki, er með svolítið lokað hugarfar. Vill að ég hringi og spyrji mömmu mína (íslensku) að öllu sem ég geri, sem ég að sjálfsögðu geri ekki. Pabbi reynir svona að mýkja hana aðeins og hjálpa mér að útskýra, en hún segir bara `Hjördís, þú ert bara 18 ára´. Hún meinar samt bara vel kellingin.
Dæmigerdur Carioca, eins og þeir sem fæddir eru í Rio eru kallaðir. Móðurfjölskyldan mín hérna er alveg stórskrítin. Þau búa í litlum bæ rétt hjá Joinville sem heitir Garufa. Öll saman í litlu húsi við vatn. Amman svo ósköp gömul og brothætt eitthvað, hríslast um meðfram veggjunum og segir ekki neitt fyrr en henni er gefið vín, þá opnast allt upp á gátt og konan hreytir af sér hverja vitleysuna á eftir annarri. Afinn er stór og feitur, reykir eins strompur, talar hátt og mikið, alltaf með læti. Svo búa þarna tvær systur mömmu með sitt hvort barnið og önnur með eiginmann. Þetta er eitthvað svo sorglegt allt saman, amman svo óhamningjusöm og afinn svo hress, eldri systirin bitur og sár med þennan leiðinlega son sinn sem enginn þolir og hin systirinn með sætu dúkkuna sína, ástfangin og fjörug. Svo komum við í heimsókn, fullkomna fjölskyldan sem allir líta svo upp til og öfunda. Frekar skrítið.
Góða skemmtun á Júróvisjónkvöldinu, skal hugsa fallega til ykkar,
-Áfram Ísland!!
Hjördis