Sælir allir mínir kæru vinir!

Nú hefur hún litla Brasilíu-Hjördís fréttir að færa! Já, loksins, loksins tókst afs að ráða fram úr vanda mínum og
finna handa mér aðra fjölskyldu.. eitthvað sem ég hef verið að bíða eftir síðan í nóvember! Jáh, fór og talaði við
trúnaðarmanninn minn í dag, var í klukkutíma að reyna að telja henni trú um að ég væri ekki að ljúga, að þessi
fjölskylda væri ekki alveg með öllum mjalla og ég ítrekaði það enn og aftur að ég væri orðin frekar þreytt á þessari
bið og óvissu, og bara svona til að losna við mig sagði hún; "Jæja, ég skal þá hringja snöggvast til Rio fyrir þig"
(þar eru höfuðstoðvar afs í Brasil staðsettar). Afs-ararnir þar tilkynntu henni að fundin væri fjölskylda í Joinville
sem að öllum líkindum tæki við mér en myndi gefa staðfest svar á miðvikudaginn og ef svo færi að það yrði
neikvætt myndi afs forsetinn þar taka mig inn á heimilið sitt. Ég þekki japanskan skiptinema sem fór heim núna
í janúar, hann bjó hjá þessum afs forseta og var alveg ofsalega ánægður þar, svo þetta lofar allt góðu. Fyrir utan
það náttúrulega að Joinville er stærsta borg fylkisins Santa Catarina, þekkt fyrir að vera borg lista, menninga og
mikils næturlífs, er í um aðeins hálftíma fjarlægð frá ströndinni, svo ég lendi ekki í sama sveitafólkshugsunarhætti
og hér. Alveg í hinum enda fylkisins. Já, ég er bara alveg mjög sátt við þessa útkomu. :o)

Ég fer á þriðjudagsmorgun sem þýðir að ég verð í Chapecó yfir páskahátíðirnar og þar af leiðandi viðstödd partý
ársins í Chapecó, eitthvað sem allir eru að bíða eftir! Fimmtudags-, föstudags-, laugardags-og sunnudagskvöld
stanslaus festa og á mánudaginn á hún Anna þýska vinkona mín afmæli! Finnst ykkur ekki skemmtileg tilviljun
að ég skuli einmitt fara daginn eftir afmælið hennar?
Þessi stóra festa er í tilefni af 8 ára afmæli aðalklúbbsins í
Chapecó, República, og þar sem fjölskyldan mín telur sig ríka eru þau að sjálfsögðu meðlimir og þar af leiðandi
ég líka :o) Tveir úr vinahópnum, Rodrigo og Groo eru með bestu plötusnúðum bæjarins og þeir verða þar að spila
undir fyrir lýðinn, svo þið getið rétt ímyndað ykkur stemninguna hjá okkur vinunum! Ágætt kveðjupartý þetta,
ekki satt? Þegar ég fór heim til Onnu í dag til að segja henni fréttirnar var það fyrsta sem foreldrar hennar sögðu;
"Núh, heyrðu nú höfum við ástædu til að kíkja til Joinville, ekki satt Anna?" Èg er svo hamingjusöm, það er allt
að ganga upp, loksins. Svo bráðum fer ég til Florianópolis aftur til að tala við afs og hitti þá alla skiptinemavinina
mína aftur, sem ég er farin að sakna. Skiptinemaárið mitt er þá svona þrískipt, frjálsa lífið mitt í Chapecó,
hálfgert götulíf bara, langa ferðalagið mitt í janúar og febrúar og 7 vikna dvölin mín í Joinville, sem ég á eftir að
sjá hvernig verður og er satt að segja mjög spennt, eins og þið líklega getið lesið á skrifunum mínum. Vona bara
að allt endi vel, ég er að minnsta kosti jákvæð.

Ég verð nú samt að viðurkenna að ég á eftir að sakna krakkanna minna hérna, fólks sem ég á ef til vill aldrei eftir
að sjá aftur. En að sama skapi á ég eftir að kynnast fullt af nýju fólki sem ég annars hefði aldrei hitt. Við vinirnir
erum núna að skipuleggja síðustu dagana okkar saman hérna, það virðist vera svo mikið sem við eigum eftir að
gera, hlutir sem við vorum löngu búin að ákveða en komum aldrei í verk. Lítur út fyrir að ég þurfi að ég þurfi að
skrópa í nokkra tíma til að ná að gera þetta allt saman. Það gerir nú samt minnst til.
Jæja, mig langaði bara svona rétt til að láta ykkur vita af nýju fréttunum mínum. Ég vona auðvitað að afs standi
við sitt og leyfi hjólunum að snúast í rétta átt. Meira vesenið á þessum samtökum, skil núna hvers vegna enginn
kannast við þau hérna í Brasilíu.
Hvað um það, læt heyra frá mér bráðlega med upplýsingum um nýtt heimilisfang og þess háttar.
Ykkar Hjördís.