Heil og sæl kæru Íslendingar!
Nú er mín loksins flutt, húrra!!! Á laugardagsmorgun tók ég rútuna til Florianópolis, 12 tíma ferðalag í fullkomnu ferðaveðri,
rigning og ekki vottur af sól. Svaf og tók því rólega, rútan hálftóm, enda fáir á ferli yfir miðja páskahátíð. Nóttina
áður náði ég ekkert að sofa, fór út og hitti vini mína á skemmtistað í Chapecó þar sem mikið var dansað og haft
gaman.

Um fjögur leytið hófst svo táraflóðið mikla, allur vinahópurinn grét og grét, krakkagreyin báðu mig um að
vera eftir. Mér tókst þó að halda andlitinu, með miklum erfiðleikum, enda er ekkert víst að ég eigi eftir að sjá þau aftur.
Þau eru svo yndisleg, þykir alveg rosalega vænt um þau öll sömul. Ég var líka alveg ringluð, því eins og mér fannst
leiðinlegt að þurfa að kveðja þau, lífið mitt í Chapecó og vissi ekkert hvert ég var að fara, hvað myndi bíða mín.
En núna er ég þakklát fyrir þessa ákvörðun, mjög ósátt út í nornina trúnaðarmanninn minn/afs-forsetann fyrir að
hafa ekki aðstoðað mig betur. Mãe og pai í Chapecó sögðu við mig rétt áður en ég fór að þeim þætti þau ekki hafa
hugsað illa um mig. Ég ákvað að þegja bara, enda nokkurn vegin sammála þeim. Þau nefnilega hugsuðu ekkert um
mig!! Núna sé ég hvað alvöru fjölskylda er, er alveg rosalega hamingjusöm.

Þau voru þrjú svo sæt á rútustöðinni í Florianópolis bíðandi eftir mér með stóran blómvönd, buðu mér út að borða á
ítalskan veitingastað og spurðu mig spjörunum út, bara eftir þetta kvöld hafa þau vitað meira um mig heldur en gamla
fjölskyldan! Æfðu sig að segja nöfnin á bróðir mínum og foreldrum og sögdu mér frá hinu og þessu varðandi þau sjálf.
Á páskadag gáfu þau mér þetta líka fína páskaegg sem ég át á ströndinni, nammi namm! Hef aldrei eytt páskunum
á strönd áður, var alveg stórskemmtilegt. Ég og bróðir minn sem er 15 ára leigðum okkur eitthvað sem virkar alveg
eins og snjóbretti nema bara til að nota í sandöldum, ekkert smá gaman, vorum alltaf að detta. Ágætt að brenna
einhverju af öllu þessu súkkulaði, hehe. Vann mér inn bikini far sem ég vona að mér takist að halda við. Gengum
um miðbæinn, borðuðum og borðuðum og seinnipart mánudags héldum við heim. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði
þegar ég sá húsið sem ég var að fara að flytja inn í!! Þessi hjón eru læknar og þau eiga tvo syni, sá eldri er sem
skiptinemi í Bandaríkjunum núna. Pabbi minn er forseti afs hérna og er alveg ofsalega fínn kall, alltaf að spaugast
eitthvað og hlæja. Mamman alveg dásamleg og strákurinn opinn og skemmtilegur. Svo eiga þau svartan labrador
hund og annan hund líka sem er álíka stór og labradorinn en er loðnari, þau eiga saman 6 hvolpa sem eru alveg
sætastir í heimi. Er með mitt eigið herbergi með svölum og alles, reyndar hálf hlægilegt útsýni, yfir í sundlaug
nágrannana! ;o) Annars er þetta hús risastórt og mjög glæsilegt. Garðurinn fallegur með stóru garðhúsi fyrir
grillveislur. Vinnukonan og garðyrkjumaðurinn eru alveg yndisleg líka, allt svo fullkomið. Ég trúi því varla að
þetta sé að gerast! Myndi helst vilja eyða heilu ári hérna í viðbót með þeim.
Í morgun fór ég með pabba mínum og öðrum sjálfboðaliða AFS upp á flugvöllinn hérna í Joinville.
Hugsið ykkur, 19 ára ástrolsk stelpa sem er búin að vera hérna í 2 mánuði á vegum AFS gat ekki meira
og heimtaði að fá að fara heim. Kjánastelpa, segist vera með svo mikla heimþrá. Hitti fjölskylduna hennar í dag,
konan enskukennari svo samskipti var ekki vandamálið, virtust svo væn. Stelpan gekk svo um fram og til baka
alveg að farast úr áhyggjum og eftir þriggja tíma bið á flugvellinum var tilkynnt að fluginu hefði verið aflýst svo
stelpan þarf að þrauka þangað til á laugardaginn til að taka næsta flug. Æ ég verð svo hneyksluð á svona
krökkum, 19 ára og treysti sér ekki til að vera í 4 mánuði lengur, pabbi hennar borgaði US$ 5.000 til afs og
US$ 600 í símreikninga og svo vill hún bara flýja og fara heim. Svo erum við hin, sem ekki fáum góða fjölskyldu,
enga aðstoð frá samtökunum, lítinn og sveitalegan bæ þar sem nánast enginn talar ensku og er ekki einu sinni
með hraðbanka, sem erum jákvæð og skemmtum okkur vel. Svona vanþakklæti gerir mig brjálaða!
Hvað um það, núna hef ég allt, allt, allt til að vera hamingusömust í heimi. Bærinn ofsalega fallegur, rétt hjá
ströndinni og hefur upp á mjög margt að bjóða. AFS hérna gerir mikið saman, heldur miklar veislur og er að
undirbúa ferðalag fyrir okkur núna. Auk mín eru hérna stelpur frá Belgíu, Þýskalandi og önnur frá Ástralíu sem
ég verð víst í bekk með. Hlakka til að hitta hana :o)
Ég ætla að drífa mig núna, set upp heimilisfangið þegar ég veit það. Ef svo (ólíklega) vildi til að þið senduð mér
bréf nýlega á Chapecó heimilisfangið, ekki hafa áhyggjur því þýska Annan mín lofaði að sjá um þau mál fyrir mig.
ykkar Hjördís