Nú eru liðnir fjórir mánuðir síðan ég kom hingað.
Ég veit ekki hvort ég hafi nokkuð talað um húsin hérna. Þau eru náttúrulega mjög misjöfn öll eins og fjárhagur fólks.
Mikið er af litlum einbýlishúsum hérna, á einni hæð, bílskúr og hús saman í pakka. Þegar heitt er og í hádeginu á
sunnudögum er stóra bílskúrshurðin opnuð og þá blasir við eldhús og svona stóð til að grilla kjöt. Inn úr þessu eldhúsi
er svo gengið inn í íbúðina sjálfa, sem að sjálfsögðu er mjög ólík íbúðunum okkar heima á Íslandi.
Ykkar Hjördís.
Ég á mjög bágt með að trúa því, enda finnst mér mjög ósanngjarnt hvað tíminn líður hratt.
Ég hef það gott hérna, það er ágætt að þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu öðru en bara að njóta lífsins.
Það á mjög vel við mig. Ég veit satt að segja ekki hvernig ég á að fara að því að halda mér heima á Íslandi eftir
dvölina hér, það er svo margt sem mig langar að kanna betur í heiminum.
Ég sé alltaf betur og betur hversu ósköp
lítil og vanmáttug ég er, bara lítil stelpa frá Evrópu sem þekkir ekki neitt. Þessu langar mig til að breyta, víkka aðeins
sjóndeildarhringinn og fá útrás fyrir ævintýraþrána. Vonandi gefst mér tími til þess seinna. Fyrst er að átta sig á
Chapecó, Suður-Brasilíu, og það getur stundum verið meira en að segja það. Mér finnst gaman að velta fyrir mér
mismuninum, landinu mínu í Norður-Evrópu og svo þessum stað í Suður-Suður-Ameríku.
Við vitum öll að fordómar stafa af fáfræði. Heima höfum við fordóma gegn lituðu fólki og fólki með aðra trú.
Enda finnst ekki mikið af þessu fólki heima. Hérna er sagan önnur. Svartir og hvítir, gulir og rauðir, allir lifa saman í
sátt og samlyndi. Kaþólskir eða andatrúar, það skiptir engan máli hérna. Þetta er fallegt, ekki satt?
En þau hafa fordóma gagnvart öðru. Hérna eru fordómar gagnvart samkynhneigðum rosalegir. Þau geta ekki
látið sjá sig úti á götu, þau þora ekki að segja nokkrum manni frá kynhneigð sinni. Og ég er ekki hissa. Ungt fólk
sem eldra eru full fordóma, stundum er ég alveg við það að missa mig yfir þau. Þeim finnst samkynhneigð bara vera
brandaraefni, eitthvað sem við Íslendingar ólumst upp af fyrir löngu síðan. Þau kalla hvert annað homma eða lesbíu
og svo hlæja allir voða hátt.
Og það er fleira sem þau hafa fordóma fyrir. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvers vegna
svo fáir í skólanum mínum noti gleraugu. Ég er nánast sú eina. Heima er næstum önnur hver manneskja að nota
gleraugu, ávallt eða bara við ákveðin tilefni. Í vikunni, við hádegisverðin komst ég svo að ástæðunni.
Ég var að reyna að útskýra fyrir pai úr hverju húsið mitt væri byggt, og þurfti til þess orðabókina. Hann gat ekki lesið,
sá ekki neitt! Hann þorði fyrst ekki að vidurkenna það, en að lokum sagðist hann þurfa gleraugu. Ég spurði hann eftir
hverju hann væri eiginlega að bíða og ég gat lesið það úr andlitinu á honum hvað var að. Fólk hérna notar ekki gleraugu.
Eldra fólk jú, en pai, 43 síðan á miðvikudaginn, finnst hann vera of ungur til að setja upp gleraugu.
Heima er það bara flott, enda er eðlilegt að fólk þurfi gleraugu.
Það er fleira sem fólkið hérna hefur fordóma fyrir,
Bandaríkin. Aldrei fær fólkið leið á því að tala illa um Bandaríkin og þá sérstaklega Bush. Mér finnst skrítið að reyna
að sjá heiminn með þeirra augum, enda er það sjónarhorn mjög ólíkt mínu. Fyrir þeim er heimurinn svo langt í burtu,
enda eru óskop ósköp fáir hérna sem hafa farið út fyrir landamörk Brasilíu og hvað þá Sudur-Ameríku. Fyrir okkur er
það audvelt, við spörum bara í nokkra mánuði og hoppum upp í næstu flugvél. Ég finn til með fólkinu hérna, það er
að missa af svo miklu.
Áberandi finnast
mér allar helgimyndirnar og litlu líkneskin sem þau koma fyrir á sem flestum stöðum. Mér finnast heimilin hérna yfirleitt
vera miklu heimilislegri heldur en á Íslandi. Allt er eitthvað svo gamalt og lúið og fólkinu finnst það bara allt í lagi!
Myndirnar eru skakkar á veggjunum, sjónvarpið pínulítið á litlu borði eða jafnvel stól fyrir framan vel notað sófasett
með skrautlegu áklæði. Hurðirnar eru oft einfaldur tréplanki með hjörum, svo er lítil spýta sem snýst á nagla til að læsa.
Það tók mig dágóðan tíma til að átta mig á því að þetta væri lás, ég var mikið búin að velta fyrir mér hvers vegna svo
margar baðherbergishurðir væru láslausar. Í kringum öll húsin er svo hátt járnhlið og nota þarf lykil til að komast inn.
Mér finnst þetta alveg yndislegt, fólkið er svo ánægt í húsunum sínum. Ég bý þó í blokk, sem mér finnst mjög fínt,
enda er hún vel staðsett, alveg í miðbænum. Ég myndi ekki vilja skipta út íbúðinni minni fyrir hús lengra frá miðbænum.
Foreldrar mínir eiga hús, en vó og vô búa þar. Pai ætlar að kaupa annað hús handa þeim. Ég átta mig engan vegin á
fjárhagslegri stöðu þeirra, því þau eiga veitingastaðinn, íbúðina sem við búum í, annan veitingastað og hús, ætla að kaupa
annað hús handa vó. Svo sendu þau dóttur sína til Sviss, þau borguðu jafnmikið til AFS og ég og þó er mun auðveldara fyrir
mig að safna heldur en þau nokkurn tímann, og hún Daniela eyðir eins og hún fái borgað fyrir það. Það virðist eins
og þau séu bara mjög vel stæð. En þau eru svo nísk, mér finnst oft mjög erfitt að skilja þau.
Það er nánast aldrei til
matur hérna. Heima á Íslandi kvartaði ég oft í mömmu og pabba að það skuli ekkert vera til að borða. Samt var
alveg heilmikið til, húsið er í raun fullt matar! Það sé ég núna, því hérna er ekki mikið ætilegt keypt.
Það er alltaf til mjólk, ostur, egg og smjör því það fá þau ókeypis. Oft er þetta líka það eina sem er til.
Það er þó alltaf þessi stóra máltíð í hádeginu og annað slagið er til afgangur um kvöldið, en hann er þá yfirleitt
merktur einhverjum öðrum en mér. Þeim finnst maturinn dýr og þá er hann bara ekki keyptur. En að kaupa hest eða
hús virðist ekki vera vandamál. Snýst allt út á að láta aðra halda að þau séu vel stæð. Mér finnst það oft fara út í öfgar.
Nú er fríið mitt hafið, það var svo heitt um helgina að ég hélt ég myndi ekki hafa það af. Ég sakna hafsins svo mikið,
mig langar svo að finna frískandi goluna og hreina loftið. Framundan eru þrír mánuðir án skóla, mér finnst það mjög sniðugt.
Ég ætla að njóta þess til fulls, enda á ég sennilega aldrei eftir að fá tækifæri líkt þessu til að slappa af og vera kát.