Íslenski fáninn Brazilíski fáninn







Hjördís skrifar frá Brazilíu - Tuttugasti og annar hluti
Að loknu Carnivali
Halló allir!

Jæja, nú er ég sest hérna aftur við tölvuna að skrifa ykkur eitthvað sniðugt. Það þarf að sjálfsögðu ekki að nefna það að carnavalið stóðst væntingar, svona að mestu að minnsta kosti. Mikið sambað og sungið, rosa gaman og mín var auðvitað í aðalgellublokkinni í bænum; Daridas! Slógum svona líka í gegn í glimmerstjörnufötunum okkar ;o)

Allur bærinn saman kominn úti á götu og allir sem úthald höfðu fóru á klúbbinn á næturnar, eftir fyrirpartýin öll sömul. Svo sá maður sig dansandi á klúbbinum, í sjónvarpinu yfir hádegismatnum daginn eftir, á Chapecó-stöðinni.
Og nossa hvað maður þekkir marga! Eða... hvað margir þekkja mann, ég viðurkenni alveg að ég þekki ekki helminginn af öllu því fólki sem mig þekkir! Úps! Venjulega kynnist maður nefninlega einum og einum í einu, eða einhverjum smáhóp, en ekki heilum bæ.. heilu samfélagi! Svo ég tali nú ekki um þegar allir heita nöfnum sem maður hefur aldrei heyrt áður og getur varla borið fram! Hvað um það, ég man nöfnin á þeim sem eru mér mikilvægastir, það er víst það sem skiptir máli ;o)

Annars er búið að vera mjög fínt undanfarið, allir að jafna sig eftir carnavalið og veðrið allt að skána, það er orðið óhætt að fara út eftir hádegi, loksins. Það er að kólna, sem betur fer og á kvöldin er meira að segja orðið svalt. Það er svo notalegt að hafa ekkert að gera, það verður erfitt að koma heim og þurfa allt í einu að standast kröfur, vinna og læra og hugsa um peninga! Þetta á óskop vel við mig, að gera bara það sem mér dettur í hug þann daginn! Hvað um það, ég á þrjá mánuði eftir, er pínu leið og pínu spennt, held samt að ég sé meira leið heldur en spennt.
Ég á eftir að sakna svo margs héðan, enda verður stefnan tekin á að koma hingað aftur eins fljótt og unnt er!! Brasilía er dásamlegt land, það er reyndar enn að vefjast fyrir mér að komast inn í þennan gamaldags hugsunarhátt hérna, en mér á sennilega aldrei eftir að takast það. Eins og hún brasilíska mamma mín sagði, afhverju veit 25 ára manneskja betur heldur en sú 10 ára? Við Íslendingar ólumst upp úr þeirra hugsunarhætti fyrir löngu síðan, þau eru ennþá á kúk- og pissubrandaraskeiðinu í samanburði við okkur. En hvað um það, ég er heilluð af þessu landi og það breytist vonandi aldrei. Þið eruð að missa af miklu.

Annars er voða lítið nýtt að gerast. Það kom hingað í vikunni skræpótt rúta og lagði við eina aðalgötuna og þar reyndust búa þrír alvöru hippar og ég stóðst nú ekki mátið og bankaði upp á. Að koma inn í þessa rútu var eins og að koma inn í annan heim. Þetta var lítil hippaíbúð á hjólum! Þessir hippar eru úr Amazon skóginum og vinna við að búa til skartgripi og fleira úr fræum, steinum, fjöðrum og þess háttar úr náttúrunni. Mér finnst þetta mjög aðdáunarvert líf, þeir bera ekki ábyrgð á neinum nema sjálfum sér og eru ekki háðir neinum. Rúnta bara um í rútunni sinni hvert sem þeir vilja og þurfa bara að eiga fyrir bensíni og hrísgrjónum. Svo sofa þeir í hengirúmum, búnir að saga gat á gólfið og hengja sturtuhaus þar fyrir ofan og það er líka klósettið þeirra, svo er lítil gaseldavél til að sjóða hrísgrjón sem þeir borða úr kókoshnetuskeljum. Þeir nota eitthvað tréduft til að bursta í sér tennurnar og ganga um berfættir.
Þeir sýndu mér myndir og ég get svarið það, þeir eru búnir að ferðast út um allt!! Svo fór ég á rokktónleika í gær og sá þá aftur dansandi eins og brjálæðinga út á gólfi. Ég stóðst heldur ekki mátið og keypti af þeim flottasta eyrnalokk sem ég hef á ævinni keypt mér og hálsfesti líka.

Svo er það eitt sem mér finnst alveg áberandi hérna í Brasilíu. Konurnar hérna eru með líkamann sinn algjörlega á heilanum! Þær hugsa stanslaust um að þurfa að grenna sig, jafnvel þótt það sé ekkert sem hægt er að brenna í burtu. Þetta væri nú allt í lagi ef þær notuðu þessar aðferðir sem íslenskar konur nota, kaupa kort í baðhúsið eða skella sér í laugarnar, borða grænmeti og meira að segja þótt þær þömbuðu núpó eða herba life.., en nei, ríkir brassar fara í aðgerð, án þess að hika við það, hinir éta töflur.

Það er í tísku hérna lyf til að fá niðurgang, hugsið þið ykkur! Litla fimmtán ára systir mín, sem dansar ballet, spilar volley og alltaf að skátast eitthvað er komin í megrunarklúbb, rándýran, stelpa sem væri enga stund að grenna sig ef hún bara myndi leggja frá sér súkkulaðið, hætta að fá sér fjórum sinnum á diskinn og borða minni fitu (hérna er fita borðuð eins og kjöt). Nei í staðinn fer hún á fundi hjá þessum megrunarklúbb og kemur heim, sest upp í sófa, étur og talar um hversu mikið hana langi til þess að læra að æla. Þetta er svo mikið rugl. Mãe ber á sig megrunarkrem og hámar svo í sig með góðri samvisku.
Ég get nú oft ekki annað en hlegið að þeim í laumi. Svo horfa þær á mig og halda mig geðveika af því að ég fæ mér "bara" tvisvar sinnum á diskinn!

Svo núna á föstudaginn á ég víst að fara til Florianopolis og vera þar í viku, ég ætla nú samt að sjá það gerast. Nefni sem minnst um þessa ferð mína hérna, það er tæplega við hæfi að rakka niður AFS hérna á veraldarvefnum, þótt ég án efa hefði mjög gaman að því. Hlakka eiginlega bara til að hitta þessa AFS-ara í Floripa og spjalla aðeins við þá, bíður mín löng og mikil vinna framundan í leiðréttingum.

Annars vona ég bara að þið hafið það sem best og njótið lífsins :o)

Þangað til næst,
Ykkar Hjördís