Íslenski fáninn Brazilíski fáninn






Hjördís skrifar frá Brazilíu - Tólfti hluti
Í ruslið með skátunum
Heil og sæl öll sömul!!

Hér er ég, enn og aftur, sest niður til að segja ykkur frá viðburðum síðast liðinna daga hér í Chapecó. Ég er alltaf jafnánægð hérna og get engan vegin trúað því að þessi dvöl mín eigi öll eftir að ganga svona ljúft fyrir sig, þetta er dásamlegt! Lífið er svo fallegt. Ég verð nánari fjölskyldunni minni með hverjum deginum, enda spilar tungumálið þar stórt hlutverk. Við Vanessa náum mjög vel saman núna, hlæjum og hlæjum, það er svo gaman að eiga systir. Við tölum samt ekkert saman í skólanum, eigum alveg sitthvora vinina, enda 3 ár á milli okkar. Hún er mjög ólík Danielu, enda allir sem þekkja til Vanessu tala fallega um hana og segja mér að ég sé heppin að eiga hana að, annað en þau segja um hana Dani. Núna er að byrja svona hálfgert lottó eða happadrætti hérna þar sem maður borgar visst á mánuði og við Vanessa ætlum að kaupa okkur saman miða, því hún, eins og ég, hefur unnið margt og mikið í svona leikjum. Þetta er nú samt meira upp á grínið, auglýsingin er svo skemmtileg í sjónvarpinu, þetta heitir Casa Feliz, eða Hamingjuhúsið, svo þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig auglýsingin er :o)

Við Géronimo erum líka ágætis vinir, við spilum saman og teflum, en hann er rosalega orkumikill strákur og það getur tekið á að vera nálægt honum lengi. Á laugardaginn fór ég á sýningu hjá skólanum hans, voða flott allt saman. Ég var sú eina úr fjolskyldunni sem fór, greyið ef ég hefði ekki farið að horfa á hann hefði enginn komið. Hér í skólunum læra krakkar að dansa, enda er það stór partur í lífi fólks hér. Mér leið eins og algjörum illa í brúðkaupinu sem ég fór í síðasta mánuði, þar sem enginn skyldi afhverju ég, 17 ára stelpan, kynni ekki að dansa! Þetta er eitthvað sem íslensku skólarnir ættu að taka til fyrirmyndar.
Mér fannst mjög gaman að sjá þessa krakka dansa á laugardaginn, mörg þeirra voru mjög flink og þetta var allt saman vel æft hjá þeim. Einn hópurinn dansaði þýskan þjóðdans, mér fannst það mjög skemmtilegt. Áður en ég kom hingað vissi ég ekki að í Brasilíu væri mikið af fólki af þýskum ættum og ítölskum. Núna í þessum mánuði er til dæmis Októberfest haldin hér í Santa Catarina, reyndar ekki í Chapecó heldur í Blumenau, en þar er mest um þýskættað fólk hér í þessu fylki. Þegar ég fór til Curitiba hitti ég franska stelpu sem hafði flutt til Þýskalands með foreldrum sínum fyrir nokkrum árum og hún kunni ekki vel við Þjóðverjana né þýskuna svo hún ákvað að fara sem skiptinemi til Brasilíu og lenti í Blumenau. Stelpugreyið, frekar ósanngjarnt. Ég varð dálítið hissa að sjá hversu margir hérna eru af Evrópskum ættum, til dæmis er amma mín í sveitinni af ítölskum ættum og við köllum hana lona, sem er amma á ítölsku. Þau eru nú samt öll brasilísk, Evrópubúarnir fluttust hingað flestir fyrir aldamótin 1900, enda Brasilía mjög ungt land, aðeins um 500 ára, svo það er ekki við oðru að búast en að íbúarnir komi frá öðrum löndum. Ég finn samt ekkert Evrópulegt í fari þeirra, en það er sjálfsagt bara ágætt, ég get fundið það heima á Íslandi.

Á fimmtudagskvöldið kom mjólkin og mãe bað mig um að sjóða hana fyrir sig. Það er nú svo sem ekki frásögu færandi, nema hvað að íslenska stelpan ég, hefur aldrei eldað á gaseldavél áður. Ég kveikti næstum í húsinu. Ofnhurðinn opnaðist og lokaðist til skiptis vegna þrýstings og íbúðin lyktaði öll af gasi. Aumingja mãe kom hlaupandi frá veitingastaðnum til að slökkva á gasinu fyrir mig, því hún kenndi mér bara að slökkva á loganum en ekki flæðinu. Þetta gengur vonandi betur næst hjá mér!

Á föstudaginn fór skólinn minn til Ita og ég fór að sjálfsögðu með. Þangað er um 2 tíma akstur í rútu og það var svo heitt að ég vissi ekki hvað ég átti af mér að gera. Ég veit ekki hvaða heppni það var að ég skyldi lenda hjá opnanlegum glugga og þar stóð ég með nefið út loftið í þeirri von um að fá eitthvað súrefni. Já, ég trúi þeim sko alveg þegar þau segja að ég eigi eftir að kveljast í sumar, því hér er ekki oft vindur eða gola, bara hiti og sól. Ita er lítill bær og nýlegur, því byggð var stífla yfir á sem rennur þar rétt hjá og þegar opnað var fyrir hana flæddi yfir allan gamla bæinn. Einu ummerki hans núna er krossinn á kirkjutoppnum sem stendur upp úr vatninu. Mér finnst þetta nú frekar undarlegt, að eyða heilum bæ bara sí svona, sérstaklega þar sem stíflan virðist ekki vera neitt rosalega stór. Þeim fannst það nú samt, en fyrir mér var þetta bara ósköp venjuleg stífla. Það var meira að segja búið til eins konar safn um stífluna, með líkani og ljósmyndum. Mér fannst nú samt áhugaverðara að fylgjast með þorpunum sem við keyrðum í gegnum á leiðinni. Húsin voru öll byggð í fjallshlíðunum, hestar og kýr röltu um villt og fólkið sat allt úti og tók því rólega, það var eins og ekkert gæti spillt þessari kyrrð. Ég kann svo vel við sveitina hérna, þar er öðruvísi andrúmsloft en í Chapecó, þótt þar sé gott að vera líka, enda kyrrlátur af bæ að vera býst ég við.

Á laugardagsmorgun fórum við pai með skátunum að skoða ruslahaugana. Það var fróðlegt. Ruslinu er hlaðið í stóran stóran haug sem þau þökuleggja síðan. Þau voru alveg með ólíkindum stolt af þessu þökulagða ruslafjalli sínu, enda svei mér sniðug hugmynd, ha? Leiðsögumaður er þar í fullri vinnu við að tölta með fólk upp og niður fjallið, ojojoj, lyktin var óbærileg. Alla leiðina heim talaði pai um hvað þetta væri ofsalega stórkostlegt og þegar hann spurði mig hvort við hefðum svona staði á Íslandi glotti hann mikið. Jæja, ég reyni bara að vera eins fordómalaus og ég get, þetta er að minnsta kosti skárra en hrúga ruslinu bara einhvern vegin upp, málið er að ég hef aldrei séð fólk dást að illa lyktandi ruslahrúgum fyrr.

Á sunnudaginn voru svo kosningar. Fólki var bannað að drekka áfengi eftir miðnætti á laugardaginn, svo þar af leiðandi voru allir klúbbar tómir, svo sorglegt sem það nú er. Til þess að ná kjöri þarf frambjóðandinn að ná að minnsta kosti helmingi atkvæða og á sunnudaginn náði því enginn, svo þann 26. verður kosið aftur og þá aðeins milli tveggja, Lula og Serra. Ég sem var að vona að þessar auglýsingar og lætin í kringum þetta allt saman væri búið. Ég veit ekki hvernig þetta verður eftir að lokaúrslitin koma í ljós, því þeir sem styðja Lula hata Serra og öfugt. Rifrildin eru hávær og fólk tekur þessu alvarlega. Fjölskyldan mín styður Serra og þau gera grín að Lula og tala illa um hann sí og æ. Hann náði þó fleiri atkvæðum en Serra, svo líklegra er að hann nái kjöri. Ég skil ekkert í hverju megin munurinn á þeim tveimur felst, svo ég held bara kjafti. Ég spurði þau hvort það hefdi einhvern tíma verið kvenkyns forseti í Brasilíu og ég vissi ekki hvert þau ætluðu þau hlógu svo mikið. Ég hefði sjálfsagt getað sagt mér það sjálf, hér er svo skýr munur á körlum og konum.

Næstu helgi er svo stefnan tekin á Iguaçu, ég held ekki vatni af spenningi. Ég vona að við komumst, fer allt eftir veitingastaðnum. Foreldrar mínir eru mjög bundin við þennan veitingastað og á sunnudögum er hann hreinlega lokaður því þau vilja fá eitt fríkvöld í viku. Þannig að það er ekki mjög audvelt fyrir þau að ferðast með mig, en ég met það mikils að þau skuli reyna. Ef við förum ekki þessa helgi förum við í næsta mánuði, svo að ég sé þetta pottþétt. Frábært.

Njótið lífsins þarna uppi, ég geri það svo sannarlega hér í Brasilíu. Ykkur er alveg óhætt að senda mér línu.

Ykkar Hjördís.