Jæja...
Tungumálið er að koma!! Veih veih veih!! Þetta er æðislegt, ég get talað við fólk sem ekki kann ensku og það skilur
mig og ég skil það!! Ég er ótrúlega sátt núna! Mér líður svoo vel hérna, þessi smábæjarmenning er mjög skemmtileg
upplifun skal ég segja ykkur.
En jæja, það er víst best að reyna að sýna smá lit og tala við Dani, svona síðasta kvöldið hennar hérna!
Thcau!
Ykkar Hjördís.
getiði hver er að fara að yfirgefa landið á morgun (skrifað 3. sept) ??!! ;-) Mér finnst nú frekar skondið
að fylgjast með undirbúningnum fyrir hennar brottför, hann er nú ansi umfangsmeiri heldur en minn var!
Vikunni áður en ég fór var ég búin að skrifa nokkurn vegin niður það sem ég ætlaði að taka með mér, ég keypti
mér 5 nýjar nærur og mamma keypti handa mér 2 stuttermaboli merkta AFS, það var nú allt og sumt sem
ég fór með nýtt.
Daniela hins vegar, tjah, ég veit satt að segja ekki hvort hún taki eitthvað með sér sem er ekki nýtt! Það voru
auðvitað keyptar ferðatöskur handa henni, tvær svona flugfreyjutöskur eins og við Íslendingar köllum þær, svo
var hlaðið í þær nýjum fötum, nýjum skóm, nýjum snyrtivörum… ég get svarið það ég hef aldrei orðið vitni af
svona rosalegum verslunarleiðangri held ég. Ég henti mínum fötum bara ofan í tösku kvöldið áður en ég fór,
var ekkert að taka of mikið með mér, en mãe var sko búin að pakka öllu fyrir meira en viku síðan! Og allt í
plastpokum, taupokum eða servítettum!
Á sunnudagskvöldið var svo haldin einhverskonar fjölskyldustund, við sátum öll í hring á gólfinu og Dani í
miðjunni, svo talaði pai voða mikið og lengi og alvarlega við hana og allir hinir lutu höfði og Dani grét og grét,
svo var bænastund, sem ég hélt að ætlaði aldrei að ljúka, þau þuldu öll í kór en ég gat auðvitað ekki tekið
þátt í þessu, ég skildi ósköp lítið hvað þau voru að segja. Ég sat samt auðvitað með þeim, sem fjölskylðumeðlimur.
Á eftir stóðu svo allir upp og kysstu Dani. Ég er viss um að bara bænalesturinn hafi tekið hálftíma, ég veit ekki
hvar eða hvernig þau lærðu þetta allt saman en það hlýtur að hafa tekið sinn tíma! Já, ohm, þetta var nú ekki
alveg svona dramatískt á mínu heimili! ;o)
Á laugardagskvöldið hélt Dani svo kveðjuveislu, hún heppnaðist alveg ágætlega bara. Mér finnst fyndið að taka
þátt í hennar undirbúning því ég skil ekki afhverju þetta er svona mikið mál fyrir þau. Það er ekki eins og hún
sé að flytja fyrir lífstíð, þetta eru bara 10 mánuðir hjá henni!! Þetta verður enga stund að líða, áður en þau vita
af verður hún komin aftur til Chapecó.
Annars verð ég að segja ykkur hvað hann pai minn sagði við mig á sunnudaginn. Það var rosa grillveisla hérna,
fullt af fólki að kveðja Dani. Eftir matinn hjálpaði ég vò að ganga frá og þurrkaði upp leirtaugið. Pai og hinir kallarnir
sátu ennþá við borðið og voru að tala saman.
Pai kallaði til mín og rétti mér kælidolluna með bjórflösku í (þau drekka bjórinn ískaldan og hafa hann alltaf í svona
kælidollu), ég hélt að hann væri að bjóða mér og ég sagðist ekki vilja. Hann horfði á mig voða skringilega og sagði:
Ég vil! Þá skildi ég að flaskan var tóm, svo ég tók við dollunni og skipti um flösku og setti á borðið hjá honum. Aftur
horfði hann skringilega á mig og sagði: Opnaðu!! Ég fór og leitaði að upptakara og opnaði fyrir hann flöskuna og
lagði dolluna svo aftur á sama stað. `Sjoooohsiis´ sagði hann (það er sko nafnið mitt hérna, hann getur víst ekki
borið það fram betur) og hristi hausinn ákaft og sagði svo: Helltu!! Ég var alveg steinhissa og hann sá það greinilega,
því aldrei hef ég séð svona áður! Ég sagði honum að í mínu landi væri ég ekki von að þjóna pabba mínum svona.
Þá sagði hann hátt og skýrt: Í Brasilíu þjónar þú pabba þínum!! Honum var alveg sama þótt það væru fullt af fólki
í kringum okkur, ég kinkaði bara kolli og hellti í glösin á borðinu, hvað annað get ég svo sem gert? Aumingja
maðurinn að vita ekki betur.
Hann er nú samt voða vænn, mér þykir mjög vænt um hann, þetta er ekkert hann persónulega neitt, svona er
þetta víst bara hérna í Brasilíu. Ég þakka samt fyrir að hann tók þetta fram fyrst núna, því ef hann hefði sagt þetta
við mig fyrstu dagana er ekkert víst að ég hefði bara kinkað kolli! =S
Ég keypti mér kort í ræktina hérna, og allt starfsfólkið er búið að læra nafnið mitt strax! Mér finnst svo gott að finna
hvað ég er mikið velkomin hingað. Það er líka allt að ganga svo vel heima. Mãe og pai eru mjög ánægð með mig,
ég er líka að vanda mig mikið við að haga mér eins og hin systkini mín.
Þetta er bara eins og lítill leikur, ég er í þykjustinni dóttir þeirra og þau eru í þykjustinni foreldrar mínir! Ég kem fram
við þau eins og ég sé brasilísk dóttir og þau sömuleiðis. Það gekk samt dáldið stirðlega fyrst, því ég vissi ekki
alveg hvernig ég átti að vera, og ekkert gat ég sagt við þau, en núna gengur allt mjög vel.
Til dæmis, þá kyssa systkini mín þau alltaf halló og alltaf bless, og ég geri það auðvitað líka. Svo það verður
dáldið skrítið að koma heim aftur og þurfa að venja mig af þessum sið, því mér finnst hann mjög notalegur.
Þau vilja líka alltaf vita hvert ég er að fara, með hverjum, hvenær ég kem aftur o.s.frv. Það er mjög nýtt fyrir
mér, því á Íslandi er ég frjáls ferða minna á daginn og oft á kvöldin líka, a.m.k. upp að ákveðnu marki.
Foreldrar mínir hérna eru samt ekkert ströng held ég, þeim er alveg sama þótt ég komi seinna en ég
sagði, ég kem alltaf við á veitingastaðnum áður en ég fer heim, til að láta þau vita af mér og kyssa þau
góða nótt og þau segja alltaf að það sé ekkert mál þótt ég sé aðeins sein og það er minnsta mál að hringja
til að láta vita að ég verði lengur.
Ég veit um mun strangari foreldra hérna, til dæmis þá má ítalska stelpan, Citlali, aldrei vera lengur úti en til kl. 1, en
þá byrja yfirleitt partýin. Svo, ég held ég sé bara nokkuð heppin. :-)
En í fyrramálið fer ég til Porto Alegre, og ég hlakka sko til! Flugvélin hennar Dani fer klukkan 18 og þetta er 8 tíma
keyrsla, svo við þurfum að leggja af stað frekar snemma. Vanessa og Gé verða heima. Við gistum hjá frænku sem
ég á þar, og er nunna!
Ég kem svo aftur á föstudagskvöld, því á laugardaginn er þjóðhátíðardagurinn hérna. Það verður spennandi að sjá
hvernig hann fer fram. Núna þessa viku förum við út á hverjum morgni í garðinn fyrir framan kirkjuna og syngjum
þjóðsönginn, allir skólar í Chapecó saman.