Íslenski fáninn Brazilíski fáninn






Hjördís skrifar frá Brazilíu - Níundii hluti
Með AFS til Curitiba
Oi þið heima!!

Hvað segið þið gott?
Af mér er allt gott að frétta, eins og alltaf. Undanfarna daga hefur rignt á okkur hérna í Chapecó og ég verð að viðurkenna að ég er bara býsna sátt við það. Ég kann vel við þessa rólegu daga þegar fjölskyldan kúrir á daginn, hver unðir sínu teppi, með bók og heitt te.

Á fimmtudaginn bauð pabbi hennar Önnu mér út að borða með fjölskyldunni. Það er svo gaman að fylgjast með þessari fjölskyldu, hún er það sem við myndum kalla fullkomna. Èg kann vel við þau. Við fórum á veitingastað sem er nánast beint á móti Samuray, veitingastaðnum sem við eigum. Við vorum einu gestirnir. Eftir matinn fór ég svo á Samuray til þess að láta vita að ég væri að fara heim en ég varð að vera þar til hálf tólf því það var svo mikið að gera!! Ég þarf stundum að hjálpa til þar, við að sneyða ost og skinku, raða glösum og diskum og þess háttar dútl. Mér finnst það ágætt ef ég hef ekkert betra að gera. :o)

Á föstudagskvöldið fór ég svo til Curitiba. Rútan lagði af stað klukkan 10 um kvöldið.
Við Anna hittumst áður og byrgðum okkur upp af hinu ýmsu góðgæti svo við hefðum eitthvað að gera á leiðinni. Vegurinn var ofsalega slæmur, ég gat nánast ekkert sofið þessa átta tíma sem ferðin tók. Bílstjórinn keyrði líka eins og óður maður, tók fram úr öllu og öllum svo við áttum oft bágt með að halda okkur kyrrum í sætunum.
AFS hafði sent okkur kort heim af leiðinni að hótelinu okkar. Það var dáldið snúið að rata þangað en okkur tókst það samt fyrir rest. Klukkan hálf sjö var enginn mættur á hótelið fyrir utan okkur fjögur frá þessum Chapter, og svo einn Norsari sem bættist í hópinn á leiðinni að hótelinu. Við skildum því töskurnar eftir og röltum um bæinn.
Það er alveg rétt sem fólk segir, Curitiba er mjög fallegur bær. Ég hefði næstum getað trúað því að ég væri í Evrópu. Mikið af almenningsgörðum með fallegum gróðri, styttum, torgum, dúfum, gosbrunnum, mér leið mjög vel þarna. Curitiba er mikill menntabær, það er mjög vinsælt að fara þangað í háskólanám. Um hádegisbil röltum við aftur upp á hótel og biðum eftir AFS fólkinu.
Krakkarnir fóru að týnast inn hver á eftir öðrum og við enduðum 18 í hóp, 16 frá Evrópu og 2 frá Bandaríkjunum. Ég var í herbergi með stelpu frá Austurríki. Flestir voru frá Þýskalandi og þau, ásamt þremur frá Belgíu og austurrísku stelpunni töluðu þýsku saman svo ég kynntist þeim ekki vel. En ég náði mjög vel til hinna, það var mjög gott að hitta aðra og skiptast á reynslu og ráðum.
AFS fólkið sagði okkur líka margt sem við höfðum ekki gert okkur grein fyrir. Til dæmis frá ofbeldinu hérna í Brasilíu. Ég vissi auðvitað að hérna væri mun meira ofbeldi en heima á Ìslandi, en ég var ekki búin að átta mig á því að á hverjum degi er fólk drepið af ástæðulausu, fólk og fólki er rænt, því er nauðgað og allt þar fram eftir götum. Ofbeldi hérna er að aukast. Einnig í smærri bæjum eins og Chapecó, þótt það sé auðvitað ekki langt um eins mikið og í stóru borgunum eins og São Paulo og Rio. Þau sögðu líka að það væri ekki ólíklegt að pabbi okkar geymdi byssu inni í skáp hjá sér til öryggis. Þetta er mér svo rosalega fjarlægt, allt þetta ofbeldi. Ég skil þetta ekki almennilega.

Ég veit bara, að ég er ofsalega fegin að vera hérna í litla sæta Chapecó og þurfa ekki að hafa neinar stóráhyggjur, ekki eins og ef ég byggi í stórborgunum.
AFS fólkið benti okkur líka á nauðsyn þess að stunda skólann eins og hinir bekkjarfélagarnir. Enginn hefur minnst á það áður, aldrei talaði AFS fólkið á Íslandi um það. Mér hefur líka ekki dottið það í hug, jújú, ég skrifa niður glósur eftir kennarana og reyni að sýna smá lit, en yfirleitt er það nú bara rétt á yfirborðinu, ég er í flestum tilvikum með hugann einhvers staðar allt annars staðar. Það er samt mjög rökrétt að krakkarnir koma aldrei til með að líta á mig sem eina af þeim ef ég sit bara og bora í nefið í kennslustundum.
Ég veit líka að það fer að styttast í það að ég þurfi að taka öll próf, ekki bara enskupróf eins og ég geri núna. En það er sjálfsagt bara gott mál.
Við í Djamminu á skemmtistaðnum The Hall Á laugardagskvöldinu fórum við svo á skemmtistaðinn The Hall og skemmtum okkur þar fram eftir nóttu. (þessar myndir af okkur eru teknar þar). Ég skil alveg afhverju allir segja að AFS útilegurnar séu með því skemmtilegasta við skiptinemadvölina ;o) Það var alveg ótrúlega fyndið, þegar við komum aftur á hótelið um hálf fjögur, var hún Lísa, herbergisfélagi minn, svöng.
Við í Djamminu á skemmtistaðnum The Hall Við komum því við í eldhúsinu til að athuga hvort hún gæti fengið eitthvað lítið í gogginn, smá brauðbita eða eitthvað. Þau sögðust ætla að finna eitthvað fyrir hana og tóku niður herbergisnúmerið. Einhverju seinna var bankað á hurðina hjá okkur og fyrir framan stóð kokkur í fullum skrúða með stærðarinnar bakka í höndunum. 2 hamborgarar, 2 stórir skammtar af frönskum, 2 diskar með ávaxtasalati og 2 djúsglös.
Hahahaha... aumingja Lísa vissi ekkert hvað hún átti að gera... og morguninn efitr þurfti hún auðvitað að borga þetta allt saman! Við sofnuðum ekki fyrr en eitthvað eftir fimm, því það tók hana svo langan tíma að koma þessu öllu ofan í sig.
Morguninn eftir vorum við vakin klukkan átta í morgunmat og svo hélt fundurinn áfram. Allir fóru í sínar rútur eftir hádegismat, nema við fjögur héðan, okkar rúta fór klukkan 10 um kvöldið. Við fórum því aftur á röltið, fundum þessa líka stóru verslunarmiðstöð með alvöru bíói, svona eins og þau eru á Ìslandi. Einhvern vegin tókst okkur að villast inn í annan sal eftir myndina, en þar var önnur mynd að byrja, sem við horfðum audvitað bara á líka. Hossuðumst svo heim í rútunni og ég var komin upp í rúmið mitt hérna klukkan sjö, endalaust þreytt eftir viðburðaríka helgi.
Um mánaðarmótin nóvember/desember stendur okkur til boða að koma aftur til Curitiba á vegum AFS og taka þátt í vikudagskrá þar. Mér líst mjög vel á það.

Ég spurði mãe hvernig hvernig ég hefði lent hjá henni, hvort hún hefði valið mig eða hvort það væri bara tilviljun. Hún sagði mér að hún hefði beðið um stelpu, sem ekki reykti, væri ekki frá Þýskalandi né Bandaríkjunum og kæmi frá landi með ólíka menningu. Henni varð svo sannarlega að ósk sinni!! Ég er enn, eftir tvo mánuði hérna, að reka mig á menningarmismuninn! Ég velti oft fyrir mér, hvort ég kunni betur við, lífið hérna eða lífið heima. Ég er spennt að vita hvað mér finnst þegar ég fer heim.

En jæja, ég vona að allt gangi vel þarna uppi hjá ykkur. Þið megið endilega vera duglegri að skrifa mér, mér þykir svo gaman að fá bréf.

Ykkar, Hjördís