Íslenski fáninn Brazilíski fáninn





Brazilíufarinn
Hjördís Guðmundsdóttir
Klukkan er aðeins 5:30 að morgni miðvikudags þann 17. júlí 2002 þegar jökulblá Mazda þeytist suður bugðóttan Keflavíkurveginn í átt til Brazilíu.
Um borð voru Hjördís, foreldrar hennar og Ívar bróðir.

Aðdragandi þessa ferðalags var nokkuð langur en upphaf þess var ævintýraþrá nokkurra unglinga sem vildu komast til framandi landa sem skiptinemar og þá helst á vegum samtakanna AFS á Íslandi.

Foreldrar Hjördísar voru að vísu frekar tregir í taumi í fyrstu, en eftir að hafa kynnt sér samtökin og starfsemi þeirra til hlítar var samþykkt að unglingurinn fengi að sækja um vist og náðist samkomulag um að Brazilía væri þokkalega góður kostur. - Það þarf ekki að orðlengja það frekar, en Hjördís fékk skömmu síðar staðfest að henni stæði til boða ársdvöl í Brazilíu.

AFS á Íslandi Upphófst nú mikill undirbúningur og stóð hann yfir í margar vikur. Það voru haldin námskeið jafnt fyrir skiptinemann sem og foreldra hans á vegum AFS.
Það þurfti að ganga frá alls kyns pappírum, vegabréfsáritunum, skólaumsókn o.fl. o.fl. Þá þurfti að sprauta unglinginn alls kyns ólyfjan til að gera hann eins ónæmann svo sem kostur var á fyrir öllum þeim pestum sem á hann gætu herjað þarna í útlandinu.
Þegar svo nálgaðist brottfarardag þurfti svo unglingurinn auðvitað að kveðja alla sem hann þekkti, og svo þurfti að pakka öllu því sem hann gæti þurft á að halda næsta árið og var nú hver stund sem eftir var til brottfarar skipulögð til hins ýtrasta og reyndist ekki vanþörf á.

Þau voru alls fimm talsins krakkarnir sem voru á leið til Brazilíu að þessu sinni á vegum AFS, þær vinkonurnar tvær af Álftanesinu Hjördís og Sigga en auk þeirra þrír vaskir strákar. Þau áttu að verða samferða til Sao Paolo í Brazilíu þar sem leiðir myndu skilja og þau færu sitt í hverja áttina vítt og breytt um landið.

Nokkru fyrir brottför hafði verið upplýst um dvalarstað og fjölskyldu Hjördísar og þegar farið var að leita á Netinu fundust frekar fátæklegar heimildir um þennan 150.000 manna bæ, Chapeco, sunnarlega í Brazilíu. Var því ákveðið að Hjördís myndi koma "þorpi" þessu á heimskortið með aðstoð veraldarvefsins.

Flugleiðir Boeing 747 Mazdan jökulbláa nálgaðist nú fyrsta áfangastað Brazilíufarans, Keflavíkurflugvöll, en þar höfðu Brazilíufararnir ungu mælt sér mót klukkan 6:00 þennan fyrrnefnda morgun.
Það reyndist brjáluð traffík í flughöfninni en þrátt fyrir það gekk fljótt og vel að koma hópnum í gegn og upphófst síðan mikil kveðjustund en að lokum horfðum við á eftir krökkunum okkar út í gegnum brynvarin Shengen-hliðin þar sem kraftmikil Flugleiðaþotan beið þeirra en hún átti að flytja þau á næsta áfangastað, sem var Kastrup-flugvöllur í Kaupmannahöfn.

Við sem eftir sátum snerum aftur til hins daglega amsturs en síðan tók við bið og bið og bið eftir staðfestingu á að dóttirin hefði nú skilað sér á langþráðan áfangastað, þ.e. til Chapeco í Brazilíu, en alls átti ferðalagið þangað að taka góðan sólarhring.
Það var síðan að kvöldi fimmtudags að síminn hringdi og var það unglingurinn, kominn á áfangastað heilu höldnu . . . eftir langa og stranga ferð.

Ferðin til Chapeco - Ferðasaga Hjördísar, 1. hluti.