Getiði hver er orðin 18 ára!! Veih veih!!
Hafið það sem best þangað til næst!
Ykkar Hjördís.
Nú vil ég samt stoppa, þetta er fínn aldur, þarf ekkert að verða neitt eldri ;o)
Afmælisdagurinn var mjög skemmtilegur, ég er sú fyrsta í minni fjölskyldu hérna til að eiga afmæli, svo ég var ekki alveg
viss um hvernig ég ætti að haga mér. Deginum áður, í hádeginu, spurði mãe mig hverjum mig langaði til að bjóða í
hádegisverðarmatarboðið á afmælisdeginum mínum.
Hádegisverðarmatarboðið??!! - Eeeh ég var lengi að finna út hvernig ég gæti sagt þeim að mig langaði ekki mikið til þess
að bjóða vinum mínum til hádegisverðarmatarboðs á afmælisdeginum mínum, endaði á að segja þeim þá "staðreynd" að
mér liði alltaf best innan um fjölskylduna mína og vildi þess vegna bara bjóða vó og vô. Mãe sættist á það, sem betur fer.
Í skólanum mundu allir eftir deginum mínum, ég var knúsuð og kysst og að sjálfsögðu var sungið fyrir mig.
Þegar ég svo kom heim voru vó og vô þegar komin og maturinn kominn á borðið.
Vó hafði gert kjúklingalasagna sem er
einn besti matur sem ég hef fengið hérna í Brasilíu, og margt hef ég þó fengið gott. Svo hafði mãe matbúið risastóran
kjúkling sem var mjög góður líka. Alls kyns meðlæti eins og vanalega, nú hafa þau loksins tekið eftir því að ég get
engan vegin borðað grænmetið með vínakraolíu og eru farin að skammta mér sér. Ég þorði auðvitað ekki að segja
þeim það sjálf því hér er kredduskapur alls ekki vel liðinn. Það er víst pai að þakka hvað var í matinn, hér er kjúklingur
ekki talinn nein afmælismáltið, mãe vildi hafa nautakjöt, em pai virðir minn smekk og fékk að ráða, að vanda.
Ég borða nefninlega óskaplega lítið kjöt hérna, nema kjúklingakjötið það finnst mér gott. Mér finnast þessar þungu
máltíðir í hádeginu alveg eyðileggja daginn, enda sofa þau hann af sér. Jæja, svo hafði pai keypt líka þessa dýrindis
tertu í fínasta bakaríinu, mmmm, allir þessir ávextir!! Svo var sungið og blásið á kertin, voða gaman.
Mér voru svo gefnar
gjafir, mãe gaf mér voða sæt náttföt og vó ilmvatn. Mín biðu svo tveir pakkar frá Íslandi, einn frá mömmu og pabba og
hinn frá Ívari. Það var alveg dásamlegt. Í öðrum pakkanum var sunnudagsaukablað Moggans og mér fannst mjög
skemmtilegt að fylgjast með pai skoða það. Kallinn var nefninlega ekki búinn að átta sig á því að á Íslandi notum við bíla…
eins og flestir aðrir í heiminum! Á Íslandi eru Mazda, Nissan, Toyota og Opel, alveg eins og í Brasilíu.
Á Íslandi eru líka sýndar sömu bíómyndir í kvikmyndahúsunum, þetta fannst honum alveg stórmerkilegt. Eftir þessa
fjölskyldustund tók ég því svo bara rólega, lá á svölunum og naut sólarinnar, svaraði í símann þegar hann lét heyra
í sér og reyndi að gera mér grein fyrir því að það væri í alvörunni 12. nóvember. Anna, vinkona mín frá Þýskalandi kom
svo seinnipartinn. Frá henni fékk ég ótrúlega fallegt pottablóm til að lífga upp á herbergið mitt, sem satt að segja er
orðið nokkuð notalegt, loksins. Ég er næstum því farin að venjast bleika litnum á því, ojojoj. Hún gaf mér líka þá
snilldarbók Kapalgátan, eftir Jostein Gaarder, á portúgölsku auðvitað. Hlakka mikið til að lesa hana.
Anna og vinkonur okkar höfðu verið að plana einhverja veislu handa mér heima hjá Önnu, en lent í smá vandræðum
með hvernig þær ættu að bjóða öllum þeim sem ég þekki en ekki þær. Þess vegna gat veislan ekki orðið óvænt lengur.
En tíminn leið svo hratt að við Anna ákváðum að halda veislu seinna og gera bara eitthvað annað í staðinn. Krakkar,
sem ég kynntist um helgina bönkuðu upp á og fóru með okkur út, ég get svo sannarlega sagt að þetta hafi verið með
skemmtilegustu kvöldunum mínum hér í Brasilíu, ég skemmti mér alveg ofsalega vel. Þessir krakkar eru alveg yndislegir.
Ég var líka svo þreytt morguninn eftir að ég ákvað að ég ætti það inni að sofa yfir mig, svona einu sinni, og gleyma því að
fara í skólann.
Eins og ég hef sjálfsagt sagt ykkur áður er fjölskyldan hennar Önnu vel efnuð. Ég hef aldrei áður kynnst fólki sem á svona
mikið af peningum. Það virðast engin takmörk vera fyrir því sem þau geta leyft sér að eyða. À hverjum degi eftir vinnu
fer mamman með dæturnar sínar tvær að kaupa föt og annað glingur en þær nota svo ekki helminginn af því sem keypt er.
Gefa húshjálpinni það eða hreinlega henda fötunum ónotuðum. Þegar ég svo heimsótti Önnu daginn eftir afmælið mitt
beið mín gjöf; úr. Ég er nú ekki vön því að fá svona almennilegar afmælisgjafir, hvað þá frá fjölskyldu vinkonu minnar
sem ég hef þekkt í þrjá mánuði. Þetta úr er heldur ekkert plastúr neitt, þýðir ekkert minna en Hugo Boss, er það nokkuð??
Svo langar mig til þess að segja ykkur frá bókinni sem ég sá í dag. Fór með vinkonu minni til vina hennar, sem hafa
endalausan áhuga á tónlist og öllu sem henni viðkemur. Þeir eiga til tónlistarmyndbönd og geisladiska með Sigur Rós
og Björk, en það er ekki mjög algengt að fólk hér í Chapecó þekki til þessara hljómsveita. Einn þeirra hafði svo nýlega
keypt bók, íslenska þýðingin á titlinum væri Orðrómur á Íslandi. Þetta er að ég held í fyrsta skipti sem ég sé eitthvað
brasilískt um landið mitt. Höfundurinn, mikill tónlistaráhugamaður líka, fór til Íslands í nokkra daga og spjallaði við hina
og þessa tónlistarmenn, svo sem Magga Kjartans, Möggu Stínu, strákana í Sigur Rós og fleiri. Hann skrifaði svo þessa
bók, sem er nokkurns konar landkynning, öðruvísi landkynning. Höfundurinn greinilega heillaðist og mér fannst alveg
æðislegt að lesa það sem hann skrifaði. Ég ætla að reyna að komast yfir þessa bók hér til að taka með heim. Sá,
sem bókina á, er með vinsælan útvarpsþátt hér í Chapecó og vill endilega fá mig til sín í þáttinn til að kynna íslenska
tónlist. Gaman að því!
Allt gott að frétta, eins og þið heyrið. Á morgun, 15. nóvember, er almennur frídagur og ég ætla að fara með mãe til vó til
að læra að búa til eitthvað af þessu brasilíska sælgæti. Þið getið farið að hlakka til heima. Svo styttist óðum í þriggja
mánaða sumarfríið mitt, svo ótrúlega sem það nú hljómar. Jólaljósin eru komin upp um allan bæ, en það er ekki búið
að kveikja á þeim enn. Mörg heimili eru einnig byrjuð að skreyta, setja upp jólatréð og svo framvegis, en mín fjölskylda
er þó ekki enn komin svo langt í jólahugleiðingunum. Ég er náttúrulega alveg ringluð, mér finnst það engan vegin geta
staðist að jólin séu í næsta mánuði, enda er sumar!
Svo að lokum, það var svínaheili í hádegismat í dag, í fyrsta sinn sagði ég nei takk þegar mér var boðinn maturinn.
Svínahöfuðið var á borðinu í heilu lagi og allt var borðað, bruðið á eyrunum og öllu bara. Eru borðaðir svínaheilar á
Íslandi líka?