Hvað segið þið þá? Tókst mér að sannfæra ykkur síðast um nauðsyn þess að fara og sjá Foz do Iguaçu? :o)
Ég skil ekki alveg þennan hugsunarhátt hérna í Brasilíu. Hún kom hérna hvern einasta virka dag og vann mikið
og vel fyrir skítakaup, sem þeim munaði nákvæmlega ekkert um að borga henni, og svo veikist dóttir hennar
alvarlega og þau banna henni að koma aftur. Þessir smáaurar sem hún fær fyrir alla þessa vinnu halda í henni
og börnunum hennar tveimur lífinu og þau létu hana gera upp á milli veikrar dóttur sinnar og vinnunnar.
Mér þótti vænt um hana og ég aðstoðaði hana stundum, bara af því að það gladdi hana svo :o)
Ég vona samt að þau finni nýja húshjálp bráðlega, það er svo óskaplega þægilegt. Þau vilja líka endilega að ég eldi fyrir
sig, en ég hreinlega þori því ekki, það sem ég kann að elda er svo einfalt og aulalegt samanborið við máltíðirnar hérna.
En, tudo bem, þau halda að ég kunni bara að elda fisk og þar sem hann er svo dýr þarf ég ekki að hafa áhyggjur af
því að þau gangi eitthvað á eftir mér með það.
En jæja, ég ætla að segja þetta gott í bili. Mér þykir alveg ofsalega vænt um að þið skulið öll vera svona áhugasöm
um það sem ég er að bauka og bjástra hérna í Brasilíunni, svona langt frá ykkur öllum. Ég hef það mjög gott hérna,
eins og fer vonandi ekki framhjá ykkur og á laugardaginn verð ég búin að vera hérna í 100 daga, trúið þið því? Ekki ég.
Ykkar Hjördís.
Ég vona það, ykkar vegna! Hvílík dýrð, ég er enn að jafna mig á þessu! Þessi vika var líka bara tekin róleg, voða
notalegt lífið hérna núna. Reyndar er húshjálpin farin, mér fannst nú frekar erfitt að horfa á eftir henni fara.
Það er líka erfitt að vera allt í einu án húshjálpar, meu deus, aldrei hefði ég trúað því að ég myndi sakna þess að
hafa einhverja konu inn á heimilinu vinnandi verkin fyrir mig! Vanessa yngri systir mín kemst þó enn upp með að sofa
á daginn og ég þarf nú ekki að gera mikið. Ég vaska upp eftir hádegismatinn, ég var vön að vaska upp alla laugardaga,
en það er nú líka ekkert mál því þá er ekkert eldað. En hina dagana, úff, allir þessir pottar og ílát og ég veit ekki hvað
og hvað, enda engar smámáltíðir hérna í hádeginu!
Svo bý ég um rúmið mitt og stundum hjálpa ég mãe við að hengja upp þvott og þá er nú flest upp talið. Það er nú
samt mér sjálfri að þakka og mikilli uppgötvun minni, að segja nei! Já, hann pai er vanur að spyrja mig hvort ég kunni
að gera hitt og hvort ég kunni að gera þetta, og alltaf segi ég sannleikann, nema í síðustu viku þegar mãe var að strauja
nærföt. Þá heyrði ég sjálfa mig segjast ekki kunna að strauja og ég er alveg ofsalega stolt af sjálfri mér! Hann pai getur
nefninlega bara straujað nærbuxurnar sínar sjálfur eða hreinlega farið í þær krumpaðar eins og við gerum heima á Íslandi.
Að minnsta kosti er ég ekkert á leiðinni að fara að strauja þær fyrir hann!
Þessi helgi mín var frekar fjörug. Fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöld fór ég út að dansa og hafa gaman, enda
er það mjög skemmtilegt hérna í Chapecó. Það er svo þægilegt hvað bærinn er lítill, þar sem þú ert eru allir. Það hittast
allir á bensínstöðvum bæjarins, svona rétt fyrir miðnætti, þar sem er spjallað og ákveðið hvað skuli gera það sem eftir er
nætur. Það er svo yndislegt að fylgjast með þessu hérna og að vera partur af þessu er enn skemmtilegra! Ég er líka svo
heppin, því allt er í göngufæri frá íbúðinni sem ég bý í, svo það er ekkert vandamál fyrir mig að tölta heim og aðalgatan er
ekki hættuleg, að minnsta kosti ekki nógu hættuleg til að pai finnist taka því að vakna til að skutlast eftir mér.
Það kom mér mikið að óvart hérna, hvað ég hef í raun mikið frelsi. Ég var búin að búa mig undir mikið meira vesen,
að það yrði mikið meira mál að fara út á kvöldin og svo framvegis. En svo virðist ekki vera. Ég geri bara mitt besta
til að halda foreldrunum góðum og vera vinur þeirra, ég segi þeim hvert ég fer og með hverjum, en samt spyrja þau aldrei.
Þau vita líka alveg að ég þori hvort sem er ekkert að flækjast ein úti um óupplýstar götur, svo það er í raun ekki mikil
ástæða til að hafa áhyggjur. Það eru líka alltaf einhverjir sem labba samferða mér heim á kvöldin.
Ég fór svo aftur í bíóið hérna og hló aðeins minna í þetta skiptið, en hló samt dátt. Ætli ég eigi nokkurn tímann eftir að
venjast þessu? Hvernig verður það eiginlega að fara í bíó á Íslandi aftur, hahaha!! Ég sé það ekki gerast í augnarblikinu.
Ég man nú ekki hvort ég var búin að segja ykkur frá bíóinu hér. Það er eitt bíó í Chapecó, með einum sýningarsal sem
sýnir eina mynd á viku. Salurinn er ekki stór, stólarnir eru bara svona stólar sem er raðað upp og hallinn er nánast
enginn í salnum. Svo, það sem mér finnst allra allra skemmtilegast, er poppið. Ætli ég hafi ekki svona gaman að því
að fylgjast með hvernig þau poppa í bíóinu hérna því ég minnist alls stressins og allra vandamálanna sem fylgdu
poppvélunum og starfinu í kringum þær í Smárabíói. Það er nefninlega ekkert verið að flækja málin, bara keyptur
örbylgjuofn! Svo er ein manneskja í fullu starfi við að skipta út popppokum og ýta á start-takkann! Sæi ég okkur
í anda borga fyrir örbylgjupopp á Íslandi! Alveg ótrúlegt hvað fólki dettur í hug til að skapa atvinnu hérna. Ì stærri
byggingum er sérstök persóna í vinnu við að ýta á takka fyrir þig í lyftunum, hún situr á kolli fyrir framan takkana
og fer með lyftunni upp og niður allan daginn. Ekki myndi ég nú endast lengi í svoleiðis vinnu!